Fréttir


FME: Lífeyrissjóðum ekki heimilt að stunda verðbréfalán

13.7.2007

Fjármálaeftirlitið hefur í dag birt á heimasíðu sinni túlkun á 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem kveður á um fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða. 

Túlkunin lýtur að heimildum lífeyrissjóða til að stunda verðbréfalán (securities lending) en í hugtakinu felst að verðbréf eru yfirfærð tímabundið frá eiganda verðbréfanna, lánveitanda, til lántaka gegn þóknun samkvæmt samningi þar um. 

Í 36. gr. laga nr. 129/1997 eru fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða skýrt skilgreindar og tæmandi upp talið með hvaða hætti lífeyrissjóðum er heimilt að ráðstafa fjármunum sínum, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna.  Þar er ekki að finna heimild til að stunda verðbréfalán og lífeyrissjóðum því ekki heimil slík viðskipti að mati Fjármálaeftirlitsins. 

Fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða afmarkaðar með skýrum hætti
Bent er á að löggjafinn hefur afmarkað fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða með skýrum hætti í ljósi lögbundins og skýrt skilgreinds hlutverks þeirra sem er að tryggja öllu starfandi fólki lágmarksframfærslu eftir starfslok.  Sjóðirnir þurfa því að gæta tilhlýðilegrar varkárni og horfa til langtímahagsmuna sjóðfélaga við ráðstöfun fjármuna. 

Að sögn Kristínar A. Birgisdóttur er það mat FME að nauðsynlegt sé að skýr rammi verði settur um verðbréfalán áður en lífeyrissjóðir hefja slík viðskipti þar sem fram komi m.a. hvert umfang viðskiptanna megi vera af hreinni eign sjóðanna, hvaða lágmarkskröfur tryggingar fyrir lánunum þurfi að uppfylla, hver tímalengd samninga megi vera og krafa um skriflegan samning um viðskiptin. “Það er mat FME að lífeyrissjóðum sé ekki heimilt að stunda verðbréfalán á meðan ekki er að finna til þess heimild í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða”, segir Kristín.

Túlkunina má finna hér.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica