Fréttir


Skýrslur um valdheimildir eftirlitsaðila

26.6.2007

Samstarfsnefnd eftirlitsaðila á evrópskum verðbréfamörkuðum, CESR (Committee of European Securities Regulators), birti nýverið niðurstöður kannana sem gerðar voru um mitt ár 2006. Kannanirnar voru gerðar í þeim tilgangi að meta valdheimildir verðbréfaeftirlita innan EES og athuga hvort þær væru fullnægjandi, með tilliti til innherjatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (nr. 2003/6/EC) og lýsingatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (nr. 2003/71/EC).

Mikilvægt er fyrir trúverðugleika evrópska eftirlitskerfisins að eftirlitsaðilar standi jafnfætis í störfum sínum, sérstaklega í ljósi þess að sífellt algengara er að andlag rannsókna falli undir lögsögu fleiri en eins eftirlits. Því hefur verið lögð rík áhersla á samstarf milli eftirlitsaðila og á að samræma úrræði þeirra og framkvæmd.

Valdheimildir svipaðar en sektarfjárhæðir breytilegar
Niðurstöðurnar eru þær að valdheimildir eftirlitanna eru almennt sambærilegar, en greina má mismun í tilteknum atriðum.
Í niðurstöðunum segir m.a. að öll eftirlitin hafi nú heimildir til að ákveða hvort grípa skuli til tiltekinna úrræða eða viðurlaga við brotum á umræddum reglum, s.s. stjórnvaldssekta. Slíkar heimildir eru mikilvægar og eru grundvöllur fyrir því að eftirlitin geti framfylgt reglum á virkan hátt. Samkvæmt könnuninni geta um 76% eftirlitsaðila í Evrópu beitt stjórnvaldssektum.  Þess má geta að CESR, í umboði framkvæmdastjórnar ESB, vinnur nú að gerð yfirlits um viðurlög og úrræði sem grípa má til við brot á innherjatilskipuninni.
Samkæmt könnun CESR eru mörk sektarfjárhæða í Evrópu breytileg, en víða námu hámarkssektir frá 90 þúsund evrum (7,6 milljónir ISK) til 75 milljóna evra (6,3 milljarðar ISK). Í Bretlandi er ekkert hámark á fjárhæð stjórnvaldssekta. Í nær öllum tilvikum hækkar sektarhámark ef ávinningur er af broti og getur numið frá tvöföldum til tífalds ávinnings af broti.

Úrræði FME sambærileg því sem gerist í Evrópu
Af niðurstöðum þessara kannana má ætla að í kjölfar setningar laga um viðurlög við efnahagsbrotum (nr. 55/2007), hafi Fjármálaeftirlitið sambærileg úrræði til að framfylgja umræddum reglum og tíðkast á þróuðustu fjármálamörkuðum Evrópu. Slík úrræði gera Fjármálaeftirlitinu kleift að sinna starfi sínu á virkan hátt, stuðlar að öflugu eftirliti sem brugðist getur skjótt við brotum og eykur trúverðugleika íslenska fjármálamarkaðarins.

Skýrslurnar eru birtar á heimasíðu CESR.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica