Fréttir


Drög að leiðbeinandi tilmælum um starfshætti vátryggingasölumanna

24.4.2007

Fjármálaeftirlitið hefur sent frá sér umræðuskjal með drögum að leiðbeinandi tilmælum um starfshætti vátryggingasölumanna, vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanna og vátryggingafélaga.  Í lögum um miðlun vátrygginga er kveðið á um upplýsingaskyldu söluaðila vátrygginga. Umrædd lög kveða m.a. á um skyldur vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmanna og starfsfólks þeirra til að veita væntanlegum vátryggingartaka skriflegar upplýsingar um kröfur hans og þarfir.

Ráðgjöf sé í samræmi við þarfir viðskiptavinarins
Í umræðuskjali FME er lögð áhersla á að ráðgjöf vátryggingasölumanns sé í samræmi við þarfir viðskiptavinarins. Þá er undirstrikað mikilvægi þess að vátryggingasölumenn gæti þess að fara ekki með ónákvæmar upplýsingar eða ósanngjarnar fullyrðingar í garð annarra vátryggingaaðila.  Áhersla er lögð á mikilvægi upplýsingaskyldu vátryggingasölumanna og skulu þeir m.a. upplýsa um mikilvægustu atriði vátryggingaskilmálanna, takmarkanir og undantekningar og reglur sem geta orðið til hækkunar eða lækkunar iðgjalds.  Loks er lögð áhersla á að vátryggingasölumaður skýri vátryggingartaka frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum  hans.

Mikilvægt að viðhafa vönduð vinnubrögð
,,Vátryggingarsamningar geta oft á tíðum verið flóknir og torskildir fyrir hinn almenna vátryggingartaka og því mikilvægt að vátryggingasölumenn viðhafi vönduð vinnubrögð í söluferlinu”, segir Rúnar Guðmundsson, sviðstjóri vátryggingasviðs FME.  ,,Með því að setja leiðbeinandi tilmæli um sjálft söluferlið erum við að setja vátryggingasölumönnum ákveðinn starfsramma sem er jákvætt fyrir vátryggingafélögin og vátryggingarmiðlarana en ekki síst fyrir viðskiptavini þeirra” , segir Rúnar.
Umræðuskjalið hefur verið sent vátryggingafélögum og vátryggingamiðlurum til umsagnar og hafa þeir frest til 3. maí að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Umræðuskjalið má nálgast hér.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica