Fréttir


Kynningar FME vegna QIS3: Fundur um efnahagsreikning, markaðsáhættu og mótaðilaáhættu

17.4.2007

Fyrsti kynningarfundur Fjármálaeftirlitsins (FME) sem fjallar um einstök málefni í QIS3 var haldinn 16. apríl sl. 11 fulltrúar þeirra vátryggingafélaga sem FME falaðist sérstaklega eftir að tækju þátt, sóttu fundinn.

Markmiðið með þessum fundum er tvíþætt. Annars vegar eru fundirnir ætlaðir til almennrar yfirferðar og kennslu í þeim aðferðum sem á að nota í æfingunni. Hins vegar er markmiðið að draga fram það sem vátryggingafélögin eiga sameiginlegt og með hvaða hætti hægt sé að einfalda æfinguna og komast hjá því að eyða tíma í atriði sem litlu sem engu máli skipta. Vilji vátryggingafélag fara aðrar leiðir varðandi tiltekin atriði er möguleiki að ræða slíkt á fundum með einstökum félögum sem fyrirhugaðir eru í júní.

Eftirfarandi er yfirlit um það helsta sem rætt var á fundinum:

1. Mat á eignum og skuldbindingum, öðrum en vátryggingaskuld, í efnahagsreikningi.

 • Almennt gildir að eignir og skuldbindingar skuli metnar á markaðsvirði eða sem næst markaðsvirði.
 • Vátryggingafélög sem gera upp í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla skulu sér í lagi halda sig við það mat.
 • Þó gildir að óefnislegar eignir skulu metnar á núlli.

2. Liðir sem teljast til gjaldþols (eligible elements of capital)

Kynnt var skipting í eiginfjárþætti (tiers of capital) og þær reglur sem gilda um skiptinguna.

 • Öll vátryggingafélög telja venjulega eingöngu til gjaldþols liði sem falla undir hámarksöryggi (tier 1).
 • Nýr eiginfjárliður kemur fram (og fellur undir tier 1) sem samsvarar umframeignum sem myndast við að liðir efnahagsreiknings eru gerðir upp skv. matsreglum QIS3.
 • Félögin hafa hér möguleika á að hugleiða að telja fram aðra liði til gjaldþols og meta hvernig flokka ber slíka liði.

3. Útreikningur gjaldþolskröfu (SCR, solvency capital requirement) vegna markaðsáhættu.

 • Við mat á stöðu (exposure) í hverjum undiráhættuflokki markaðsáhættu skal horft í gegnum verðbréfasjóði. Sé slíkt ekki mögulegt er vátryggingafélaginu heimilt að gefa sér forsendur um eignasamsetningu sjóðsins.
 • Við mat á vaxtaáhættu er æskilegt að þekkja líftíma (duration) hvers verðbréfs og hverrar skuldbindingar. Þó er möguleiki að gefa sér meðallíftíma verðbréfasjóðs, safns af eignum og safns af skuldbindingum.
 • Við mat á áhættuálagsáhættu (spread risk) skal nota öll verðbréf með föstum tekjum önnur en ríkisskuldabréf. FME hyggst kanna nánar hvernig meðhöndla eigi veðlán.

4. Útreikningur lágmarksgjaldþols (MCR, minimum capital requirement) vegna markaðsáhættu.

 • CEIOPS gefur kost á tveimur jafnréttháum aðferðum til að reikna MCR vegna vaxtaáhættu. Sú fyrri (alternative 1) krefst minni upplýsinga en sú síðari og er því einfaldari.

5. Útreikningur SCR vegna mótaðilaáhættu (counterparty default risk)

 • Útreikningurinn tekur til allra endurtryggjenda og mótaðila í afleiðusamningum.
 • Dæmi um lánshæfismat í leiðbeiningum miðast við einkunnakerfi Standard & Poor's. Sé notað lánshæfismat annars matsfyrirtækis skal raða einkunnakerfinu þannig að úr verði sambærilegir einkunnaflokkar.

Á fundinum var sýnt dæmi um útfyllingu Excel-skjalsins. Dæmið má nálgast hér.

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica