Fréttir


Fjármálaeftirlitið fjallar um stöðu lífeyrissjóðanna 2013

24.6.2014

Fjármálaeftirlitið hefur birt yfirlit sitt yfir stöðu íslenskra lífeyrissjóða fyrir árið 2013. Lífeyriskerfið er öflugt og heldur áfram að stækka í efnahagslegu tilliti. Á liðnu ári voru starfandi 27 lífeyrissjóðir í 80 deildum samtryggingar og séreignar. Aðrir vörsluaðilar séreignasparnaðar voru sjö talsins.  Tryggingafræðileg staða sjóðanna hefur farið batnandi og er staða sjóða án ábyrgðar launagreiðenda nærri komin í jafnvægi. Tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er enn áhyggjuefni. Vegna vaxandi mikilvægis lífeyrissjóða við öflun lífeyristekna mun þurfa að bregðast við þeirri stöðu  eins og gert hefur verið  í mörgum af okkar nágrannalöndum. Gjaldeyrishöft takmarka enn fjárfestingamöguleika lífeyrissjóðanna og möguleika þeirra til áhættudreifingar.

Lífeyrismarkaður

Eignir alls lífeyriskerfisins voru í árslok 2013 um 2.812 milljarðar kr. eða 158% af vergri landsframleiðslu og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða voru 2.400 milljarða kr. sem er um 85% af markaðnum og að auki nam séreignasparnaður í vörslu þeirra um 260 milljörðum kr. Séreignasparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða nam 152 milljörðum kr. í árslok 2013.

Fimm stærstu lífeyrissjóðirnir eru þeir sömu og á sl. ári, þ.e. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður,  Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stapi lífeyrissjóður. Hrein eign þeirra nam 1.547 milljörðum kr. í árslok 2013 sem er um 55% af lífeyrismarkaðnum og um 87% af vergri landsframleiðslu.

Verðbréfaeignir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga jukust ekki á liðnu ári eftir stöðuga aukningu frá árinu 2008. Hlutfallið er samt hátt í alþjóðlegum samanburði eða nærri 50%. Stærstur hluti þessara eigna eru skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði. 

Hrein raunávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna á liðnu ári var 5,6%. Árleg meðal raunávöxtun sl. 20 ára var 3,9% sem er yfir  3,5% ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna. Árleg raunávöxtun sl. 10 og 5 ára var annars vegar 3,6% og hinsvegar 2,6%. Hrein raunávöxtun séreignadeilda þeirra var 3,5% á árinu 2013.

Tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga  nam í árslok 2013 nærri 595 milljörðum kr. Tryggingafræðileg staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda hefur batnað umtalsvert á liðnum árum og er nálægt jafnvægi  með halla sem nemur um 60 milljörðum kr. eða um  2% af heildarskuldbindingum.  

Hér eru heildarniðurstöður ársreikninga lífeyrissjóða 2013 ásamt kennitölum og öðrum upplýsingum. Á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins er einnig talnaefni úr skýrslunum.

Hér er einnig glærukynning frá blaðamannafundi sem haldin var af þessu tilefni.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica