Fréttir


Nýjar reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál nr. 565/2014

18.6.2014

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að Seðlabanki Íslands hefur birt nýjar reglur nr. 565/2014 um gjaldeyrismál sem taka gildi þann 19. júní 2014.

Seðlabanki Íslands ber ábyrgð á eftirliti með gjaldeyrismálum samkvæmt lögum nr. 87/1992. Í samræmi við það hlutverk sitt hefur bankinn um nokkurt skeið haft til skoðunar hvort þjónustusamningar erlendra vátryggingafélaga sem boðnir hafa verið til sölu hér á landi séu í samræmi við lög og reglur um gjaldeyrismál. Könnun bankans hefur leitt í ljós að ýmsar tegundir samninga sem í boði eru fela í sér óheimilan sparnað eða söfnun erlendis og hafa umsvif og útflæði fjármagns vegna þeirra aukist verulega síðustu ár.

Seðlabankinn hefur því gefið út nýjar reglur um gjaldeyrismál sem miða að því að tryggja að farið sé að lögum um gjaldeyrismál ásamt því að gæta hagsmuna einstaklinga sem keypt hafa afurðir erlendra vátryggingafélaga í góðri trú, auk þess að stuðla að jafnræði milli innlendra og erlendra vörsluaðila hvað varðar fjárfestingaheimildir. Reglurnar fela í sér nokkra rýmkun frá fyrri reglum er miðar að því gera þeim sem gert hafa samninga við erlend vátryggingafélög kleift að viðhalda samningssambandi sínu á grundvelli breyttra skilmála.

Fjármagnshöftin, sem innleidd voru hinn 28. nóvember 2008, takmarka fjármagnshreyfingar en ekki almenn viðskipti með vörur og þjónustu. Iðgjaldagreiðslur samkvæmt samningum um vátryggingar, t.d. líf-, sjúkdóma- eða slysatryggingar, teljast kaup á þjónustu og eru því heimilar skv. lögum um gjaldeyrismál. Hins vegar teljast greiðslur vegna samninga sem fela í sér sparnað erlendis, óháð því hvaða nafni slíkir samningar eru nefndir, fjármagnshreyfingar. Samkvæmt tilkynningu Seðlabanka Íslands miða þær breytingar sem nú eru gerðar á reglum um gjaldeyrismál að því leysa úr vanda sem skapast hefur vegna samninga sem gerðir hafa verið við erlend vátryggingafélög og fela í sér óheimilar fjármagnshreyfingar í heild eða að hluta.

Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans vegna málsins var það haft að leiðarljósi við gerð reglna nr. 565/2014 að gera einstaklingum kleift að viðhalda samningssambandi við erlend vátryggingafélög á grundvelli breyttra skilmála sem fela í sér að sparnaður og söfnun á grundvelli þeirra eigi sér stað hér á landi og í íslenskum krónum. Í því skyni að lágmarka hugsanlegt óhagræði einstaklinga, sem gert hafa samninga í góðri trú, af stöðvun greiðslna vegna umræddra samninga og til þess að veita þjónustuaðilum svigrúm til þess að aðlaga fyrirkomulag iðgjaldagreiðslna til samræmis við íslensk lög, mun Seðlabankinn veita fjögurra mánaða aðlögunartímabil áður en gjaldeyrisviðskipti á grundvelli áðurnefndra samninga verða stöðvuð. Á aðlögunartímabilinu geta rétthafar efnt samninga í erlendum gjaldeyri sem gerðir voru fyrir gildistöku reglnanna, samhliða því sem unnið er að viðeigandi breytingum á skilmálum samninganna, sbr. ofangreint.

Til þess að gæta jafnræðis á milli innlendra vörsluaðila séreignarsparnaðar og erlendra vátryggingafélaga um ávöxtun sparnaðar hefur erlendum vátryggingafélögum verið veitt heimild til að fjárfesta í fjármálagerningum útgefnum í innlendum gjaldeyri með það að markmiði að þau hafi hliðstæðar fjárfestingarheimildir og innlendu vörsluaðilarnir.

Í tilkynningu Seðlabankans kemur jafnframt fram að bankinn leggi áherslu á að vátryggingafélög sem í hlut eiga geri svo fljótt sem auðið er viðeigandi breytingar á skilmálum samninga sem fela í sér óheimilar fjármagnshreyfingar í formi sparnaðar eða söfnunar erlendis. Rétthafar slíkra samninga ættu ekki að þurfa að bregðast við að svo stöddu en ættu að hafa samband við  sinn söluaðila óski þeir nánari upplýsinga.

Nánari upplýsingar fyrir neytendur um áhrif nýrra reglna á hverja samningsgerð fyrir sig, ásamt svörum við algengum spurningum, má finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, sjá hér.

Fréttatilkynningu Seðlabanka Íslands má finna á vef bankans, sjá hér.

Hinar nýju reglur um gjaldeyrismál nr. 565/2014 eru birtar hér.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica