Fréttir


EIOPA gefur út drög að leiðbeinandi tilmælum vegna Solvency II til umsagnar

16.6.2014

Evrópska eftirlitsstofnunin á vátrygginga- og lífeyrismarkaði (EIOPA) birti 2. júní sl. drög að leiðbeinandi tilmælum vegna innleiðingar Solvency II tilskipunarinnar (2009/138/EB). EIOPA var komið á fót með reglugerð ESB nr. 1094/2010/EB og skv. 16. gr. þeirrar reglugerðar hefur EIOPA heimild til að setja leiðbeinandi tilmæli til að auka samræmingu í regluverki og eftirliti innan ESB. Tilmælin útskýra betur eftirlitsframkvæmd og kröfur í Solvency II og því telur Fjármálaeftirlitið það til hagsbóta fyrir alla aðila á markaðnum að farið sé að þeim.

Um er að ræða fyrri hluta leiðbeinandi tilmæla sem fara í umsagnarferli, en síðari hlutinn mun fara í umsagnarferli í lok ársins. Hér verður gerð stuttlega grein fyrir efni tilmælanna en skipta má þeim í eftirfarandi flokka:

·         Stoð 1 (Gjaldþolskröfur, vátryggingaskuld og gjaldþolsliðir)

·         Eigin líkön (e. internal models)

·         Stoð 2 (Stjórnarhættir og ORSA)

·         Eftirlitsferlið (e. Supervisory Review Process, SRP)

·         Jafngildi ríkja utan EES

Tilmælin má sjá hér. Umsagnarfrestur er til 29. ágúst nk.

Stoð 1

Viðbótargjaldþolsliðir (ancillary own funds)

Vátryggingafélög þurfa fyrirfram samþykki eftirlitsstjórnvalda, ætli þau sér að nota viðbótargjaldsliði til að mæta gjaldþolskröfu (e. Solvency Capital Requirement, SCR). Tilmælin fjalla um ferli eftirlitsstjórnvalda við mat á umsóknum vátryggingafélaga og er ætlað að styðja við drög að tæknistaðli um sama efni sem fóru í umsagnarferli 1. apríl sl.

Flokkun gjaldþolsliða

Reglugerð sem Framkvæmdastjórn ESB mun gefa út í tengslum við Solvency II síðar á árinu inniheldur lista yfir hvaða gjaldþolsliðir flokkast í tiltekinn gjaldþolsþátt (e. tiers). Markmiðið með þessum tilmælum er að gefa leiðbeiningar um hvernig flokka eigi gjaldþolsliði sem ekki er að finna á listanum.

Varðir sjóðir (ring-fenced funds)

Fjallar um hvernig eigi að tilgreina hvort um varða sjóði sé að ræða, mat á eignum og skuldbindingum innan slíkra sjóða og hvernig tilvist þeirra hefur áhrif á útreikning SCR. Í núverandi umhverfi uppfyllir enginn hluti starfsemi vátryggingafélags hér á landi skilyrði þess að teljast varin frá öðrum hluta starfsemi félagsins.

Meðhöndlun tengdra félaga

Fjallar um hvernig meta eigi tengd félög í útreikningi SCR og hvernig gjaldþolsliðir eru metnir þegar vátryggingafélög eiga fjármálafyrirtæki sem dóttur- eða hlutdeildarfélag.

Hvernig „horfa á í gegn“ í staðalformúlu SCR (look-through approach)

Í áðurnefndri reglugerð mun koma fram að vátryggingafélög þurfa að „horfa í gegn“ um fjárfestingarfélög, fjárfestingar í sjóðum og aðra óbeina skuldbindingu gagnvart markaðsáhættu, vátryggingaáhættu og mótaðilaáhættu. Í þessum drögum er fjallað um ýmis tilvik þar sem þetta á við, sér í lagi þegar um er að ræða óbeina skuldbindingu gagnvart vátryggingaáhættu.

Grunnáhætta í staðalformúlu SCR (basis risk)

Vátryggingafélögum er eingöngu heimilt að nota áhættuvarnir (risk-mitigation techniques) í útreikningi SCR, ef þær varnir fela ekki í sér grunnáhættu. Tilmælunum er ætlað að hjálpa vátryggingafélögum að meta hvort grunnáhætta felist í áhættuvörnum.

Markaðsáhætta í staðalformúlu SCR

Markaðsáhætta er ein mikilvægasta stoðin í SCR. Tilmælunum er ætlað að leiðbeina um meðhöndlun ýmissa vafaatriða í útreikningi markaðsáhættu og mótaðilaáhættu.

Hæfni vátryggingaskuldar og frestaðs skatts til að draga úr tapi

Sá hluti þessara leiðbeinandi tilmæla sem á við hér á landi veitir nánari leiðbeiningar um hvernig taka beri tillit til frestaðs skatts í útreikningi SCR.

Hamfaraáhætta heilsutrygginga í staðalformúlu SCR

Í heilsutryggingum sem reknar eru á sambærilegum grunni og líftryggingar þarf í útreikningi SCR að gera grein fyrir stórslysi (e. mass accident), samþjöppuðu slysi (e. accident concentration) og faraldri (e. pandemic). Í þessum drögum að leiðbeinandi tilmælum er fjallað um hvernig reikna eigi út tilteknar stærðir sem eru nauðsynlegar til að meta þessa þætti og skýrt er út hvaða gögn eigi að nota.

Líftryggingaáhætta í staðalformúlu SCR

Fjallað er um hvernig eigi að reikna út áföll vegna dánaráhættu, langlífisáhættu og örorkuáhættu í útreikningi líftryggingaáhættu í SCR.

Eigin stikar vátryggingafélags í staðalformúlu SCR

Vátryggingafélögum er heimilt að nota eigin stika (e. parameters) í útreikningi tiltekinna áhættuþátta í staðalformúlunni. Í drögum að tæknistaðli sem fór í umsagnarferli 1. apríl sl. er fjallað um ferli eftirlitsstjórnvalda við samþykki á notkun stikanna. Í þessum drögum að leiðbeinandi tilmælum er fjallað um gæði gagna, aðlögun á gögnum, notkun ytri gagna og hlutverk sérfræðimats.

Notkun endurtryggingaverndar í útreikningi skaðatryggingaáhættu í staðalformúlu SCR

Þessum tilmælum er ætlað að tryggja sameiginlegar og samræmdar aðferðir við mat á áhrifum endurtryggingaverndar í útreikningi hamfaraáhættu vegna skaðatrygginga.

Útreikningur hamfaraáhættu vegna ábyrgðartrygginga í staðalformúlu SCR

Markmið tilmælanna er að leiðbeina við ákvörðun um fjölda áhættuþátta með hæstu mörkin í hverjum flokki ábyrgðartrygginga eins og skilgreint er í staðalformúlunni.

Flokkun vátryggingarsamninga í ábyrgðartryggingum

Fjallað er um hvernig skipta á vátryggingarsamningum í ábyrgðartryggingum í 5 flokka skv. staðalformúlu SCR. Sér í lagi er fjallað um ábyrgðartryggingar sem seldar eru í „pökkum“.

Útreikningur gjaldþols samstæðu

Þessi drög skýra ýmis atriði er varða samstæður og er beint að móðurfélögum samstæðna, hvort sem þau eru vátryggingafélög, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði eða blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi.

Mat á vátryggingaskuld

Tilmælunum er ætlað að tryggja að sem mest samræmi sé í útreikningi vátryggingaskuldar. Drögin fjalla um gæði gagna, greinaskiptingu, ákvörðun forsendna, val á aðferðum og staðfestingu (e. validation).  Tilmælunum er beint að þeim sem gegna munu starfssviði tryggingastærðfræðings hjá vátryggingafélögum.

Mörk vátryggingarsamninga (e. contract boundaries)

Á við ef vátryggingarsamningur (einkum í líftryggingum) er óuppsegjanlegur af hálfu vátryggingafélags og ekki er heimilt að breyta iðgjöldum, en slíkir samningar hafa áhrif á útreikning vátryggingaskuldar. Hér á landi er líftryggingafélögum heimilt að breyta iðgjöldum við árlega endurnýjun samnings og því er talið að þessi tilmæli eigi ekki við hér á landi.

Eigin líkön

Þessi drög að leiðbeinandi tilmælum styðja við drög að tæknistaðli um ferli eftirlitsstjórnvalda við notkun eigin líkana sem fór í umsagnarferli 1. apríl sl. Þau fjalla með nánari hætti um hvað eftirlitsstjórnvöld og vátryggingafélög þurfa að skoða við mat á því hvort notkun eigin líkans sé viðeigandi. Nánar tiltekið fjalla tilmælin um:

·         Hvaða atriði þurfi að skoða áður en umsókn er send

·         Hvernig líkönum er breytt á viðeigandi hátt

·         Hvernig mæta eigi skilyrðum tilskipunarinnar, t.d. notkunarskilyrðinu (e. use test).

·         Atriði sem eftirlitsráð (e. colleges) alþjóðlegra samstæðna þurfa að skoða við umsókn um notkun eigin líkans fyrir samstæðuna

Stoð 2

 

Stjórnarhættir

Eins og kunnugt er gaf EIOPA út leiðbeinandi tilmæli um stjórnarhætti sem ætluð voru til undirbúnings Solvency II. Þá voru þau atriði sem ekki var talið mögulegt fyrir vátryggingafélög að uppfylla fyrir gildistöku Solvency II tekin út úr fyrirliggjandi drögum EIOPA. Þessi drög fjalla aftur á móti um öll þau atriði sem ætlast má til að vátryggingafélög uppfylli varðandi stjórnarhætti eftir gildistöku Solvency II.

Eigin- áhættu og gjaldþolsmat (e. Own risk and solvency assessment, ORSA)

EIOPA gaf einnig á síðasta ári út undirbúningstilmæli um ORSA, sem þá var reyndar kallað FLAOR (Forward Looking Assessment of undertaking‘s Own Risk). Hér koma fram þau atriði sem ætlast má til að vátryggingafélög geti uppfyllt eftir gildistöku Solvency II

Eftirlitsferlið

Markmið þessara tilmæla er að tryggja samræmdar aðferðir í eftirliti með vátryggingafélögum og vátryggingasamstæðum, en jafnframt er gefinn möguleiki á að aðlaga aðferðir í sérstökum tilvikum. Ferlinu er lýst í nokkrum skrefum.

Jafngildi

Framkvæmdastjórn ESB skal gefa út hvort ríki utan EES uppfylli skilyrði um hvort regluverk þeirra teljist jafngilt Solvency II, hvað varðar eftirlit með endurtryggjendum, gjaldþoli samstæðu og samstæðueftirlit. Drögin fjalla um hvernig meta eigi jafngildi í tveimur síðastnefndu þáttunum þegar ákvörðun ESB liggur ekki fyrir.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica