Fréttir


Viðlagaæfing Norrænna fjármálayfirvalda

24.1.2007

Í framhaldi af grein í tímaritinu Economist þann 18. janúar 2007 vill FME koma eftirfarandi á framfæri:

Á árinu 2007 munu fjármálaeftirlit, fjármálaráðuneyti og seðlabankar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum taka þátt í sameiginlegri viðlagaæfingu fjármálayfirvalda. Tilgangurinn með æfingunni er að kanna viðbragðshæfni yfirvalda í þessum ríkjum við hugsanlegum áföllum hjá fjármálafyrirtækjum með starfsemi yfir landamæri. Megináhersla verður lögð á samhæfingu í ákvörðunartöku á milli ofangreindra stofnana og ríkjanna sem um ræðir þar sem fjármálafyrirtæki í þessum löndum stunda mikil viðskipti sín á milli.

Viðlagaæfingin er tilkomin vegna eindregins vilja þeirra aðila sem að henni standa til að kanna samstarfs- og samhæfingarferla stofnananna.  Tekið skal fram að ekkert sérstakt tilefni eða atburðir tengdir ákveðnum fjármálastofnunum eða fjármálamörkuðum landanna liggja til grundvallar viðlagaæfingunni. Það ber því ekki að túlka tímasetningu og viðfangsefni viðlagaæfingarinnar sem vísbendingu um breytt mat yfirvalda á fjármálastöðugleika í löndunum sem um ræðir.

"Sambærilegar viðlagaæfingar hafa verið haldnar hér á landi, bæði árið 2004 og 2006, í samstarfi FME og Seðlabanka. Þessi samnorræna viðlagaæfing er hinsvegar nýlunda og er skýrt dæmi um það hvernig alþjóðlegt samstarf vegur sífellt þyngra í starfsemi FME”, segir Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME.

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica