Fréttir


Vegna athugasemda við rannsóknir Fjármálaeftirlitsins

10.12.2013

Reglulega hafa komið fram umræður í fjölmiðlum um að Fjármálaeftirlitið hafi farið offari í störfum sínum eftir hrun, einkum varðandi rannsóknir á meintum brotum þeirra sem réðu ríkjum í bankakerfinu í aðdraganda hrunsins. Sýna verður því skilning að menn sem eru sakaðir um að hafa stuðlað að þeim atburðum sem hér urðu haustið 2008, neyti allra leiða til að verja sig og sinn málstað, enda meginregla að sakaðir menn hafa leyfi til að verja sig með nánast öllum tiltækum ráðum.

Fjármálaeftirlitið vill í þessu sambandi ítreka að starfsfólk FME hefur unnið af miklum heilindum að rannsóknum vegna atburða í aðdraganda hrunsins og skilað af sér mörgum kærum og vísunum til Sérstaks saksóknara, en það er eitt af hlutverkum FME samkvæmt lögum. Sérstakur saksóknari hefur síðan það hlutverk að rannsaka frekar og taka ákvörðun um framhald mála.

Fyrir liggur að fjöldi þeirra mála sem Fjármálaeftirlitið sendi Sérstökum saksóknara hafa orðið að dómsmálum. Þá hafa bæði dómstólar og umboðsmaður Alþingis staðfest margt af því sem komið hefur frá FME. Það er þó alveg ljóst að Fjármálaeftirlitið er ekki óskeikult og dómar hafa í einhverjum tilvikum fallið stofnuninni í óhag. Slík tilvik eru skoðuð með það í huga að læra af þeim og fara að þeim fordæmum sem þar eru gefin.    

Eina rangfærslu sem hefur komið fram í umfjöllun fjölmiðla er sérstaklega ástæða til að leiðrétta. Hún varðar nýlega niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli vegna hæfis tiltekins framkvæmdastjóra. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að komast að annarri niðurstöðu en Fjármálaeftirlitið. Málið er nr. 6615/2011, en upplýsingar um niðurstöðuna hafa enn ekki verið birtar á heimasíðu umboðsmanns.
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica