Fréttir


Fjármálaeftirlitið setur reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum

12.7.2013

Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur nr. 625/2013 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Reglurnar voru samþykktar af stjórn FME 10. júní sl. og birtust í vefútgáfu Stjórnartíðinda þann 4. júlí. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.

 

Fjármálaeftirlitinu ber skv. 4. mgr. 30. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, að setja reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Við endurskoðun reglnanna hefur verið gengið úr skugga um að gildandi bankatilskipanir hafi verið innleiddar. Í þeim tilgangi var m.a. niðurröðun einstakra greina í íslensku reglunum breytt til samræmis við tilskipunina. Umrædd ráðstöfun hefur þann kost að reglurnar líkjast væntanlegri EES-gerð á fjármálamarkaði, reglugerð (EB) nr. 575/2013, sem mun m.a. ná til stórra áhættuskuldbindinga og verður innleidd hér á landi á komandi árum. Við vinnuna var einnig höfð hliðsjón af norskum og dönskum reglum um stórar áhættuskuldbindingar til nánari glöggvunar á því hvernig Norðurlandaþjóðirnar höfðu útfært ákvæði tilskipunarinnar í sínum reglum.

Helstu breytingar:

              i.        Nokkuð af efni var fært undir nýja grein sem sérstaklega nær til útreiknings á áhættuskuldbindingum skv. reglunum. Umræddar breytingar varða m.a. niðurröðun efnis með þeim hætti að efni sem var dreift á nokkur ákvæði í reglum um stórar áhættuskuldbindingar, nr. 216/2007, hefur verið safnað saman í heildstæða grein um útreikning áhættuskuldbindinga. Við bættust tveir nýir liðir, c) og d) liðir, um það hvaða liðir teljast ekki til áhættuskuldbindinga. (3. gr.)

             ii.        Nýrri grein var bætt við reglurnar í samræmi við þær breytingar sem tilskipun 2009/111/EB hafði á bankatilskipunina, 2006/48/EB. Umrædd grein, 4. gr., felur m.a. í sér þá nýjung að fjármálafyrirtækjum er skylt að horfa í gegnum sjóði um sameiginlega fjárfestingu, þ.m.t. UCITS sjóði.

            iii.        Miklar breytingar hafa verið gerðar á þeirri grein sem felur í sér þak eða takmörkun á stórum áhættum. Í stað þess að mælt sé fyrir tvenns konar mörkum, 20% og 25%, er einungis um ein mörk að ræða nú: 25% af eiginfjárgrunni. Jafnframt er mælt fyrir viðbótarreglu er varðar áhættuskuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækjum, þess efnis að hámarkið sé annað hvort 25% eða 500 milljónir króna, hvort heldur sem hærra reynist. (7. gr.)

           iv.        Nokkuð af efni var fært undir nýja grein sem nær sérstaklega til mildunar útlánaáhættu. Efnið var áður dreift um ákvæði reglna um stórar áhættuskuldbindingar, nr. 216/2007. (8. gr.)

            v.        Frádráttarliðum hefur fækkað töluvert í nýjum reglum. M.a. voru g-, h-, j- og p-liðir 4. gr. reglna um stórar áhættuskuldbindingar, nr. 216/2007, sem vörðuðu áhættuskuldbindingar gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum, felldir út. (9. gr.)

           vi.        Nýrri grein sem nær sérstaklega til áhættuskuldbindinga vegna fasteigna hefur verið bætt við reglurnar. Umrædd grein byggir á frádráttarliðum sem fyrirfundust í reglum um stórar áhættuskuldbindingar, nr. 216/2007, en ítarlegri upplýsingar og skilyrði vegna beitingar hennar koma fyrir í nýju reglunum. (11. gr.)

          vii.        Nýrri grein um meðferð áhættuskuldbindinga sem tryggðar eru af þriðja aðila er bætt við reglurnar. Í greininni er m.a. kveðið á um að fjármálafyrirtækjum er heimilt að líta á tryggðan hluta áhættuskuldbindinga, líkt og um sé að ræða áhættuskuldbindingu gagnvart ábyrgðar- eða veðveitanda. (12. gr.)

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica