Fréttir


Fjármálaeftirlitið setur reglur um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélaga

3.5.2013

Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur nr. 334/2013 um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélaga. Reglurnar voru birtar í vefútgáfu Stjórnartíðinda þann 17. apríl sl.

Samkvæmt 5. mgr. 29. gr. eldri laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum, var viðskiptaráðherra falið að setja reglugerð um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélaga. Reglugerð skv. þessari heimild, nr. 954/2001 fól í sér að lögfestur var viðauki við tilskipun 98/78/EB um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í vátryggingahópi. Viðauki I við tilskipun 98/78/EB veitir ákveðna valkosti um hvaða aðferðir einstök ríki heimila við útreikning á aðlöguðu gjaldþoli og ef fleiri en ein aðferð er heimil, hver þeirra sé staðalaðferð við útreikning aðlagaðs gjaldþols og lágmarksgjaldþols. Í reglugerðinni var farin sú leið að miða við Aðferð 2 í viðaukanum sem byggð er á frádrætti kröfu (e. requirement deduction method) sem staðalaðferð en aðrar aðferðir voru einungis heimilar í sérstökum tilvikum.

Reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 920/2008 um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum tóku gildi 1. október 2008. Reglurnar lögfestu tilskipun 2002/87/EB um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu. Sú tilskipun gerir einnig ráð fyrir hliðstæðum valkostum varðandi val á aðferð sem notuð er í útreikningi eiginfjárgrunns og lágmarksgjaldþols fjármálasamsteypa. Þess ber hins vegar að geta að Aðferð 2 í tilskipun 98/78/EB er ekki heimil fyrir fjármálasamsteypur.

Við setningu reglna um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum ákvað Fjármálaeftirlitið að fylgja Aðferð 1, sem byggir á samstæðureikningsskilum (consolidation method) í Viðauka I við tilskipun nr. 2002/87/EB, sem staðalaðferð. Við þá breytingu varð ósamræmi í aðferðum varðandi mat á fjárhagsstöðu fjármálasamsteypa annars vegar og vátryggingasamstæðna hins vegar.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um vátryggingastarfsemi segir um 6. mgr. 31. gr. að gert sé ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið setji nýjar reglur um útreikning aðlagaðs gjaldþols sem komi í stað gildandi reglugerðar, vegna þeirra ástæðna sem hér hafa verið raktar. Segir í athugasemdunum að reglur þessar muni gera ráð fyrir að sömu reglur gildi um viðbótareftirlit hvort sem vátryggingafélag er hluti af vátryggingasamstæðu eða fjármálasamsteypu. Sem dæmi um mikilvægi samræmingar þessarar má nefna að vátryggingasamstæða getur breyst í fjármálasamsteypu á skömmum tíma ef móðurfélag samstæðunnar kaupir lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki.

Í ljósi þessa markmiðs 6. mgr. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi sem kemur fram í frumvarpi með lögunum eru hinar nýútgefnu reglur byggðar upp með hliðstæðum hætti og reglur nr. 920/2008 um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Þá felst í reglunum fyllri innleiðing ákvæða tilskipunar 98/78/EB. Ákvæðin eru nauðsynleg til að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu með aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélaga eins og kveðið er á um í 1. mgr. 63. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica