Fréttir


ESMA og EBA vara við viðskiptum með CFD fjármálagerninga

12.3.2013

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að Evrópska eftirlitsstofnunin á verðbréfamarkaði (ESMA) og Evrópska eftirlitsstofnunin á bankamarkaði (EBA) hafa gefið út viðvörun til fjárfesta um viðskipti með CFD fjármálagerninga. Slíkir gerningar hafa verið markaðssettir hér á landi m.a. með auglýsingum á Facebook. Má sjá þær á vefsíðunni: http://www.plus500.is/

Skammstöfunin CFD stendur fyrir Contract for Difference eða samning um fjárhagslegan mismun. Um er að ræða afleiðusamning þar sem  viðskiptavinurinn gerir samning sem dregur verð sitt af undirliggjandi fjármálagerningi, hrávöru, gjaldmiðlum eða öðru sem liggur til grundvallar samningsins.  Viðskipti með CFD samninga eru skuldsett viðskipti þar sem viðskiptavinurinn leggur fram sem tryggingu lítinn hluta þeirrar upphæðar sem hann hefði þurft að reiða fram ef hann hefði átt bein viðskipti með undirliggjandi eign. Samið er um að viðskiptavinurinn fái greitt eða þurfi að reiða fram mismuninn sem er á samningsverði og því verði sem undirliggjandi eign er á þegar  samningnum er lokað.

Evrópsku stofnanirnar tvær, sem vísað er til hér að framan, segja í tilkynningu sinni meðal annars að þær hafi áhyggjur af því að nú á tímum lágrar ávöxtunar sé verið að freista óreyndra fjárfesta innan Evrópusambandsins með flóknum fjármálaafurðum sem þeir skilja kannski ekki fyllilega. Fjárfestingin geti á endanum kostað þá peninga sem þeir hafi ekki efni á að tapa.

Viðvörun ESMA og EBA má sjá hér.
Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica