Fréttir


Eftirlit Fjármálaeftirlitsins með félögum sem stýrt er af slitastjórnum

30.11.2012

Að undanförnu hefur verið umræða um sérstakt eftirlit Fjármálaeftirlitsins með rekstri félaga sem stýrt er af slitastjórnum, sbr. ákvæði 101. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hér á eftir verður nánar vikið að því hvaða félög sæta eftirliti á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis og í hverju eftirlit stofnunarinnar er fólgið.

Félög sem sæta eftirliti á grundvelli 101. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki

Í 1. mgr. 101. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækis sem stýrt er af slitastjórn óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hafi starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi eða hvort starfsleyfi þess hafi verið afturkallað. Þau félög sem falla undir skilgreininguna eru eftirfarandi:

 1. Landsbanki Íslands
 2. Glitnir
 3.  Kaupþing
 4. Sparisjóðabankinn
 5. Askar Capital
 6. Byr sparisjóður
 7. SPRON
 8. Frjálsi fjárfestingarbankinn
 9. SPRON verðbréf
 10. Rekstrarfélag SPRON
 11. VBS fjárfestingarbanki
 12. Saga Capital
 13. EA fjárfestingafélag

Í fyrrgreindu ákvæði segir ennfremur að dótturfélög fjármálafyrirtækis í slitameðferð sem haldi utan um eignir þess skuli jafnframt heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Félög sem falla undir skilgreininguna eru m.a. eftirfarandi:

 1. Drómi
 2. Kaupskil
 3. ISB Holding
 4. Landskil

Þá má geta þess að nokkur fjármálafyrirtæki hafa sætt inngripi af hálfu Fjármálaeftirlitsins, en falla ekki undir eftirlit á grundvelli 101. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki. Fyrirtækin eru:

 1. Straumur-Burðaráss fjárfestingarbanki – nú ALMC (slitameðferð lauk með nauðasamningi)
 2. Sparisjóðurinn í Keflavík (gjaldþrotaskipti í kjölfar slitameðferðar)
 3. Spkef sparisjóður (ákvörðun um sameiningu skv. samningi við Landsbankann)
 4. Sparisjóður Mýrarsýslu (ákvörðun um ráðstöfun í samræmi við kaupsamning SPM og Arion banka)
 5. Avant (sameining við Landsbankann í kjölfar nauðasamnings)
 6. Byr (sameining við Íslandsbanka)

Eftirlit Fjármálaeftirlitsins með félögum sem falla undir 101. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki

Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með félögum í slitameðferð og dótturfélögum þeirra er m.a. fjallað í 101. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki. Í ákvæðinu segir eftirfarandi: „Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavininum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.“

Að mati Fjármálaeftirlitsins er mikilvægt að gæta að hagsmunum viðskiptavina fjármálafyrirtækja í slitameðferð og hefur fjármálaeftirlitið því lagt allt kapp í að bregðast við þeim ábendingum sem borist hafa frá viðskiptavinum þeirra og eftir atvikum Umboðsmanni skuldara. Í því sambandi má nefna að Fjármálaeftirlitið hefur m.a. lokið athugun á starfsháttum Dróma, sbr. gagnsæistilkynning Fjármálaeftirlitsins sem birt var á heimasíðu stofnunarinnar þann 21. nóvember sl.

Fjármálaeftirlitið sinnir fjölþættu eftirliti með félögum í slitameðferð og dótturfélögum þeirra. Sem dæmi má benda á eftirfarandi:

 • Fjármálaeftirlitið fylgist með stöðu félaga í slitameðferð en í því felst m.a. að halda til haga upplýsingum um heildareignir, lausafjárstöðu, fjárhæð krafna, fyrirhugaðar útgreiðslur, lok slitameðferðar og ýmis álitamál sem upp kunna að koma.
 • Fjármálaeftirlitið metur hæfi til setu í slitastjórn eða skilanefnd skv. 4. mgr. 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki
 • Fjármálaeftirlitið fylgist með framvindu nauðasamninga félaga í slitameðferð
 • Fjármálaeftirlitið fylgist með meðferð virks eignarhlutar gömlu bankanna í nýju bönkunum þremur, þ.e.a.s. Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum.
 • Fjármálaeftirlitið tekur á öðrum álitamálum sem upp koma hverju sinni

Þess ber einnig að geta að Fjármálaeftirlitið hefur sinnt rannsóknum á málum í tengslum við hrun bankanna í október 2008, sem sum hver hafa endað með kærum til embættis sérstaks saksóknara auk þess sem fjölmörgum málum hefur verið vísað til embættisins eftir forrannsóknir Fjármálaeftirlitsins.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica