Fréttir


Umræðuskjal nr. 2/2006 um starfsreglur stjórna fjármálafyrirtækja

10.12.2006

Fjármálaeftirlitið birtir til umsagnar Umræðuskjal nr. 2/2006. Umræðuskjalið hefur að geyma endurskoðun leiðbeinandi tilmæla nr. 1/2003 um efni starfsreglna stjórna fjármálafyrirtækja, skv. 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Skjalið verður sent til fjármálafyrirtækja til umsagnar, og einnig er það birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins (www.fme.is). Umsagnarfrestur er til 21. ágúst 2006.

Í 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, er kveðið á um framkvæmd starfa stjórna fjármálafyrirtækja. Þar kemur fram að stjórn skuli setja sér starfsreglur um framkvæmd starfa sinna. Í tilmælum þessum er haft að leiðarljósi að slíkum innri starfsreglum er ætlað að tryggja jafnræði við meðferð mála og vandaða og óháða málsmeðferð. Tilgangur þeirra er því m.a. að tryggja skýrleika í málsmeðferð ásamt því að styrkja umgjörð um viðskipti stjórnarmanna og félaga þeim tengdum við fjármálafyrirtækið og mæla fyrir um aðgang stjórnarmanna að upplýsingum um viðskiptamenn.

Veigamesta breytingin sem gerð er varðar eftirlit með fyrirgreiðslu til venslaðra aðila. Fjármálaeftirlitið hefur lagt til að fjármálafyrirtæki leggi fyrir ytri endurskoðanda að fara yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og bera saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina (armslengdarsjónarmið). Fjármálaeftirlitið fer fram á að skýrslur ytri endurskoðanda vegna slíkra úttekta verði sendar Fjármálaeftirlitinu árlega vegna fjármálafyrirtækja þar sem niðurstaða efnahagsreiknings samstæðu er yfir 100 milljarðar króna, en annað hvert ár fyrir önnur fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að fleiri aðilar geti fallið undir skyldu um árlega athugun ytri endurskoðanda ef þess er talin þörf.

Auk ofangreinds eru gerðar minniháttar breytingar sem eru til þess fallnar að gera reglurnar skýrari.

Reglum af þessu tagi er ætlað að efla traust íslensks fjármálamarkaðar, m.a. með því að staðreyna á formbundinn hátt að eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir séu viðhafðir í viðskiptum venslaðra aðila við fjármálafyrirtæki.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica