Fréttir


Tilkynning: Breytt verklag hjá FME við afgreiðslu umsagnarbeiðna um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða og öflun álits tryggingastærðfræðinga í því sambandi

10.12.2006

Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skal stjórn lífeyrissjóðs fá álit trygginga(stærð)fræðings á áhrifum breytinga á samþykktum sjóðsins á getu hans til þess að greiða lífeyri.

Fjöldi umsagnarbeiðna til Fjármálaeftirlitsins vegna samþykktabreytinga og sameiningu lífeyrissjóða hefur aukist verulega. Markmið Fjármálaeftirlitsins er að auka skilvirkni við afgreiðslu þessara mála og er því nauðsynlegt að auka samvinnu á milli Fjármálaeftirlitsins, lífeyrissjóða og tryggingastærðfræðinga þeirra. Samræmd framsetning tryggingastærðfræðilegra gagna væri til þess fallin að flýta afgreiðslu mála. Með hliðsjón af því vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi á framfæri:

Þegar samþykktarbreytingar hafa óveruleg eða engin áhrif á fjárhagslega stöðu sjóðsins skal senda Fjármálaeftirlitinu staðlað bréf (gefið út í Word formi) þess efnis undirritað af  tryggingastærðfræðingi sjóðsins.[<br>]
Þegar samþykktarbreytingar hafa áhrif á réttindi sjóðfélaga og/eða getu sjóðs til að greiða lífeyri, skal  tryggingastærðfræðingur sjóðsins senda Fjármálaeftirlitinu meðfylgjandi greiningu á samþykktarbreytingum  ásamt tilheyrandi útskýringum í Excel skjal formi. Uppsetning Excel skjalsins er það sama og bls. 1(a) í “Skýrslu um tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins”.  Skjalið er sett upp á þann veg að allar summur reiknast sjálfkrafa.  Niðurstöður fyrstu þriggja dálka skal taka beint úr síðustu úttekt sjóðsins.  Niðurstöður síðustu þriggja dálka eru endanlegar niðurstöður eftir að allar samþykktarbreytingar hafa átt sér stað.  

Ofangreint  staðlað bréf og Excel-skjal eru aðgengileg á heimasíðu, www.fme.is, undir  “Skýrsluskil” (sjá kassa hægra megin á forsíðu heimasíðu) og kaflanum “Lífeyrissjóðir: “Önnur tryggingafræðileg gögn” (á fjórðu bls.).

Undirritað bréf tryggingastærðfræðings sjóðsins skal senda til Fjármálaeftirlitsins í pósti eða “skannað” sem viðhengi tölvupósts. Greiningarskjal tryggingastærðfræðings sjóðsins skal senda sem viðhengi tölvupósts á Excel-formi.

Framvegis mun Fjármálaeftirlitið ekki veita umsagnir varðandi samþykktarbreytingar lífeyrissjóða þar til ofangreind skjöl tryggingastærðfræðinga lífeyrissjóða berast Fjármálaeftirlitinu.

Undanþegnir frá ofangreindu eru lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis eða sveitafélaga, sbr. 51. gr. laga nr. 129/1997.

Nánari upplýsingar veitir:

Ragnar Hafliðason í síma 525 2700

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica