Fréttir


Staða samstarfs fjármálafyrirtækja og fulltrúa lánþega um úrvinnslu gengistryggðra lána

8.6.2012

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila, þ. á m. fjármálafyrirtækja, sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Hins vegar hefur Fjármálaeftirlitið ekki úrskurðarvald í ágreiningsmálum eða heimild til að skera úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti.
 

Í tengslum við úrlausn ágreiningsmála vegna gengistryggðra lána er starfandi samráðsnefnd fjármálafyrirtækja, Umboðsmanns skuldara, Neytendastofu og talsmanns neytenda. Fjármálaeftirlitið á áheyrnarfulltrúa í samráðsnefndinni og fylgist grannt með framgangi vinnunnar.

Undanfarið hefur Fjármálaeftirlitinu borist nokkur fjöldi fyrirspurna og ábendinga vegna úrvinnslu mála tengdum ofangreindum lánum og hefur eftirlitið unnið úr þeim í samræmi við verklagsreglur sínar vegna slíkra erinda. Í ljósi nefnds fjölda fyrirspurna og ábendinga telur Fjármálaeftirlitið hins vegar rétt að vekja athygli á neðangreindri umfjöllun um málið sem fengin er af heimasíðu Umboðsmanns skuldara:

Staða samstarfs fjármálafyrirtækja og fulltrúa lánþega um úrvinnslu gengistryggðra lána:

  • Búið er að greina þau álitaefni sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi.
  • Ekki er hægt að hefja endurútreikning íbúðalána sem falla undir dóm Hæstaréttar frá því í febrúar, vegna óvissu um reikningsaðferð.
  • Velja þarf gaumgæfilega þau mál sem skjóta þarf til dómstóla til að skera úr um óvissuþætti.
  • Aðilar samstarfsins eru sammála um að reynt verði að tryggja að málarekstur verði lántakendum að kostnaðarlausu og að umboðsmaður skuldara gæti hagsmuna þeirra.
  • Óskað verður eftir flýtimeðferð hjá dómstólum. Verði þeir við þeirri beiðni gætu fyrstu dómar legið fyrir í haust.

Þann 9. mars 2012 heimilaði Samkeppniseftirlitið fjármálafyrirtækjum samstarf sem miðar að því að hraða úrvinnslu skuldamála sem varða gengistryggð lán í framhaldi af dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Auk fjármálafyrirtækja áttu Umboðsmaður skuldara, Neytendastofa og talsmaður neytenda aðild að samstarfinu. Heimild til samstarfs náði til:

a) Túlkunar dóms Hæstaréttar nr. 600/2011.

b) Aðferða við endurútreikning þeirra lána sem hafa að geyma óskuldbindandi ákvæði um gengistryggingu og dómur Hæstaréttar tekur til.

c) Endurskoðunar þeirra endurútreikninga sem þegar hafa farið fram á umræddum lánum og áhrifum dóms á þá.

d) Greiningar þeirra álitaefna sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi.

e) Vals á málum sem hentugust eru til þess að bera undir dómstóla með álitaefni skv. d. lið í huga.

f) Vals á málsástæðum sem reyna þarf á í dómsmálum skv. e. lið í því skyni að eyða sem fyrst allri réttaróvissu.

Aðilar samstarfsins urðu ásáttir um að leita til óháðra lögmanna til að greina þau álitaefni sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi, fara yfir dómsmál sem nú eru rekin fyrir dómstólum m.t.t. þess hvaða mál geta dregið úr réttaróvissu í kjölfar dómsins og gefa leiðbeiningar sem nýst geta við framsetningu á málsástæðum og val á dómsmálum sem reka skal til að draga úr réttaróvissunni. Samtök fjármálafyrirtækja og Drómi hf. tilnefndu Aðalstein E. Jónasson hrl. og Stefán A. Svensson hrl. Umboðsmaður skuldara tilnefndi Einar Huga Bjarnason hdl. og Sigríði Rut Júlíusdóttur hrl.

Lögmennirnir hafa nú skilað meðfylgjandi samantekt þar sem tilgreind eru um tuttugu ágreiningsefni sem reynt gæti á fyrir dómstólum. Ljóst er að við uppkvaðningu fleiri dóma aukast líkur á því að hægt verði að hefja endurútreikning og ekki þarf að bíða eftir úrlausn allra ágreiningsefna áður en endurútreikningur hefst.

Greind voru þau dómsmál sem nú þegar eru fyrir dómstólum vegna gengislána. Í ljós hefur komið að í þeim fáu málum sem kunna að hafa fordæmisgefandi áhrif mun einungis reyna á örfá þeirra álitaefna sem nefnd eru í samantekinni. Næsta skref samstarfsins er því að velja mál sem hentug eru til þess að bera undir dómstóla, með álitaefni lögmannanna í huga. Líklegt er að höfða þurfi fimm til tíu mál til að fá svör við helstu álitaefnunum. Óskað verður eftir flýtimeðferð hjá dómstólum og verði þeir við þeirri beiðni er vonast til að dómar Hæstaréttar í fyrstu málunum geti legið fyrir í haust.

Til að hægt sé að fá úr þeim álitaefnum skorið, sem nefnd eru í samantekt lögmannanna, þurfa ýmist lántakendur eða fjármálafyrirtæki að hafa frumkvæði að málshöfðun. Umboðsmaður skuldara mun gæta hagsmuna þeirra lántakenda sem verða aðilar að málarekstri á grundvelli samstarfsins og til skoðunar er hvernig tryggja megi að hann verði lántakendum að kostnaðarlausu.

Helstu álitaefni sem þarf að fá úr skorið:

  • Áður en endurútreikningur á íbúðalánum sem alltaf hafa verið í skilum og falla undir dóminn getur hafist er mikilvægt að fá úr því skorið hvaða reikningsaðferð skal nota og frá hvaða tímamarki lántaki var ekki lengur í góðri trú með að greiða samningsvexti.
  • Áður en hafist verður handa við endurútreikning annarra lána þarf að fá úr því skorið hvort lengd lánstíma og fjárhæð viðbótargreiðslu falli undir fordæmi dóms Hæstaréttar og þ.a.l. skammtímalán á borð við bílalán.
  • Ef ekki hefur verið greitt af láni í samræmi við upphaflega lánaskilmála þarf að fá úr því skorið hvort það skipti máli að lánið hafi á tilteknum tíma verið í vanskilum og þá hvort líta skuli á hvern gjalddaga sjálfstætt eða á lánið í heild. Líklega þarf að fá úr því skorið hvaða þýðingu það hefur ef lántaki hefur notið greiðsluúrræða, svo sem greiðslujöfnunar, greiðsluskjóls, breytinga á greiðsluskilmálum eða greiðslu hluta af afborgun eða vöxtum.
  • Hvað varðar fyrirtæki og aðra lögaðila þarf að fá úr því skorið hvort og að hvaða marki dómurinn kann að hafa fordæmisgefandi áhrif fyrir þau.

Samantekt lögmannanna.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica