Fréttir


Breytingar á reglum um mat á tjónaskuld vátryggingafélaga

16.5.2012

Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 56/2010 getur Fjármálaeftirlitið (FME) sett reglur um mat á vátryggingaskuldinni og hvaða gögn skuli fylgja auk ársreiknings. Reglur FME nr. 903/2004 frá 3. nóvember 2004 kveða á um mat á tjónaskuld og gagnaskil í því sambandi.

Á fundi stjórnar FME þann 7. mars sl. voru reglur um breytingar á 7. gr. áðurnefndra reglna samþykktar. Reglurnar hafa tekið gildi með birtingu í Stjórnartíðindum þann 11. apríl 2012 og hafa hlotið númerið 331/2012.

Markmiðið með breytingunni er tvíþætt. Gögn FME sýna að tjón vátryggingafélaga í ökutækjatryggingum eru gerð hraðar upp en áður sem þýðir að ekki er þörf á að leggja eins mikið til hliðar í tjónaskuld. Því hefur lágmarksstuðullinn sem var í 1. mgr. eldri reglna verið lækkaður úr 3,1 (eins og hann breyttist með reglum nr. 529/2009) niður í 3,0. Lágmark tjónaskuldar í ökutækjatryggingum fæst með því að margfalda stuðulinn með bókfærðum tjónum vátryggingafélagsins.

Í breytingunni felst einnig viðurkenning á því að uppgjörshraði tjóna hafi farið hratt lækkandi hjá einstökum vátryggingafélögum og kemur sú lækkun ekki að fullu leyti fram í útreikningum FME sem byggir á meðalgreiðsluhraða allra vátryggingafélaga yfir lengra tímabil. Orðalagi reglnanna hefur því verið breytt þannig að vátryggingafélögum er ekki lengur óheimilt að meta tjónaskuld sína undir mörkum 7. gr., en fari tjónaskuldin undir þessi mörk þurfa þau að gera FME grein fyrir ástæðum þess.

Önnur leið til að taka tillit til breytts uppgjörshraða hefði verið að FME þróaði nýja útreikningsaðferð, sem tæki t.d. minna tillit til eldri upplýsinga. FME telur þá leið sem farin hefur verið þá raunhæfustu. Þann 1. janúar 2014 mun Solvency II tilskipunin taka gildi (tilskipun 2009/138/EB) þar sem kveðið verður á um samræmingu á útreikningi vátryggingaskuldar og verður þá ekki lengur þörf á sérstökum reglum FME.

Reglur nr. 331/2012 um breytingu á reglum nr. 903/2004, um mat á tjónaskuld og gagnaskil í því sambandi.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica