Fréttir


Skil á skýrslu fyrir árið 2005 um tryggingafræðilega athugun á lífeyrissjóði.

10.12.2006

Samkvæmt 24. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skal stjórn lífeyrissjóðs láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins í samræmi við 39. gr. laganna og ákvæði reglugerðar nr. 391/1998. Skýrslu um tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins ber að senda Fjármálaeftirlitinu fyrir 1. júlí ár hvert.

Eins og undanfarin ár óskar Fjármálaeftirlitið eftir því að fyrrgreind skýrsla berist á samræmdu formi sem Fjármálaeftirlitið hefur uppfært og aðgengilegt er á heimasíðu, www.fme.is, undir   “Skýrsluskil” (sjá kassa hægra megin á forsíðu heimasíðu) og kaflanum “Lífeyrissjóðir: Skýrsla um tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2005” (á þriðju og fjórðu bls.). Uppfærða skýrslusniðmátið er gefið út sem Excel-skjal. Undantekning er sniðmát yfirlits samþykkta lífeyrissjóðsins sem er aftur gefið út í Word formi. Leiðbeiningar og breytingar frá fyrra ári birtast eingöngu með því  að prenta Word skjalið eða opna skjalið og fara síðan í "View" og "Print layout".

Fjármálaeftirlitið beinir hér með þeim tilmælum til sjóðanna að fylgja ofangreindu skýrsluformi þar sem annað skýrsluform telst ekki fullnægja skilyrðum Fjármálaeftirlitsins.  Aðrar tegundir skýrslna, skjala eða/og upplýsinga uppfylla ekki slík skilyrði en má senda sem viðbótarupplýsingar.

Yfirlýsing tryggingastærðfræðings skal fylgja skýrslunni þar sem fram kemur í hverju vinna hans/hennar var fólgin, hvaða forsendugrundvöllur var notaður, hvort útreikningsniðurstöður skýrslunnar eru mat tryggingastærðfræðings á áætlaðri þróun og reynslu sjóðsins og hvort ástæða hafi þótt til að víkja frá forsendum þeim sem ákveðnar eru með reglugerð nr. 391/1998. Í tilfellum þar sem skýrslan er uppfærð af starfsmanni lífeyrissjóðsins þarf staðfestingu tryggingastærðfræðings sjóðsins um áreiðanleika og réttmæti skýrslunnar.

Nokkrar breytingar eru frá fyrra ári:

1. Bréf þetta er birt á heimasíðunni til leiðbeiningar.
2. Í yfirlýsingu tryggingastærðfræðings er bætt við (1) hvort samþykktarbreytingar tóku gildi á árinu 2005, og (2) áhrif samþykktarbreytinga á fjárhagslegu stöðu sjóðsins.
3. Á bls. 1(a) í kafla I skal setja "áhrif samþykktarbreytinga" í stað "áhrif forsendubreytinga ".
4. Árið 2005 eru staðlaðar örorkulíkur óbreyttar frá fyrri árum, eða miðaðar við 70% af danska reiknigrundvellinum G82. Hinsvegar byggist athugun margra lífeyrissjóða á   íslenskum örorkulíkum. Í þeim tilfellum er mikilvægt að fylla út bls.1(b) og lýsa örorkulíkum athugunar á bls. 8.
5. Bls. 1(c) hefur verið fjarlægð.
6. Á fyrra ári voru sniðmát “yfirlit samþykkta” fyrir (1) stigasjóði, (2) hlutfallssjóði, og (3) aldurstengda sjóði. Nú bætist við sniðmát fyrir blandaða sjóði (sbr. Gildi). 

Skýrslunni skal skila  til FME í Excel skjali og Word skjali, sem aðgengileg eru á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.  Eingöngu skal skila skýrslunni  á rafrænu formi. Undantekning frá því er undirrituð yfirlýsing tryggingastærðfræðings. Skýrslunni má skila í litum eða án lita.

Rétt er að minna aftur á að vanhöld varðandi skýrsluskil til Fjármálaeftirlitsins kunna að leiða til þess að hafið verði dagsektarferli gagnvart lífeyrissjóði í samræmi við ákvæði reglna nr. 560/2001 um beitingu dagsekta í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica