Fréttir


Reglur um kaupaukakerfi vátryggingafélaga

16.4.2012

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 56/2010 skal Fjármálaeftirlitið setja reglur um kaupaukakerfi vátryggingafélaga.

Á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins þann 7. mars sl. voru reglur um kaupaukakerfi vátryggingafélaga samþykktar. Reglurnar hafa tekið gildi með birtingu í Stjórnartíðindum þann 27. mars 2012 og hafa hlotið númerið 299/2012.

Með reglunum er kveðið á um hvernig standa megi að afkomutengdu hvatakerfi í vátryggingafélögum, svonefndum bónusgreiðslum. Reglurnar setja ákveðna mælikvarða á hámark kaupauka þannig að á ársgrundvelli megi kaupauki starfsmanna ekki nema hærri fjárhæð en 25% af árslaunum viðkomandi án kaupauka. Enn fremur skal fresta greiðslu hluta af kaupauka um að lágmarki 3 ár, þannig að unnt sé að taka tillit til sveiflna í viðskiptalífinu og hagkerfinu sem geta haft áhrif á árangur. Loks má nefna að reglurnar mæla fyrir um lækkun, afturköllun eða endurgreiðslu kaupauka þegar mælikvarða um árangur í starfi er ekki náð.

Við gerð reglnanna var höfð hliðsjón af efnislega sambærilegum reglum um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja nr. 700/2011, þó þannig að tekið væri tillit til eðlismunar á rekstri vátryggingafélags annars vegar og fjármálafyrirtækis hins vegar auk mismunandi áherslna í löggjöf og framkvæmd við eftirlit. Þannig má nefna að í síðasta málslið 5. gr. reglnanna er kveðið á um að vátryggingafélag skuli ekki aðeins senda úttekt og greiningu innri endurskoðunar á kaupaukakerfinu til Fjármálaeftirlitsins heldur skuli í tilkynningu um slíka úttekt og greiningu rökstutt sérstaklega hvernig kaupaukakerfið samræmist góðum venjum og viðskiptaháttum og heilbrigðum og traustum rekstri vátryggingafélags skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Auk framanritaðs er tilefni til að vekja athygli á því að við gerð reglnanna var tekið tillit til lágmarksskilyrða sem reglur vátryggingafélaga um kaupaukakerfi þurfa að uppfylla samkvæmt Solvency II, sbr. 1. mgr. 41. gr. tilskipunar nr. 2009/138/EB.

Fjármálaeftirlitið óskaði eftir umsögnum frá hagsmunaaðilum við vinnslu reglnanna. Í kjölfar móttöku athugasemda umsagnaraðila var m.a. ákveðið að láta reglurnar ekki gilda um  árangurstengdar greiðslur sem veittar eru vátryggingasölumönnum vegna sölu vátrygginga. Þetta er vegna þess að ekki er talið að slíkar greiðslur feli í sér sérstaka áhættu fyrir rekstur vátryggingafélaga. Jafnframt var ákveðið að nægjanlegt væri við könnun innri endurskoðunar á tilteknum þáttum kaupaukakerfis, sbr. 5. gr. reglnanna, að líta til greiðslna dótturfélaga til framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna í stað þess að litið væri til slíkra greiðslna frá öllum aðilum í nánum tengslum.

Fjármálaeftirlitið féllst ekki á athugasemdir umsagnaraðila sem lutu að skilgreiningu á hugtakinu „lykilstarfsmaður“, en skilgreining þess er samhljóða skilgreiningu sama hugtaks í 8. tölul. 1. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Jafnframt var ekki fallist á þá afstöðu umsagnaraðila að ekki skyldi taka mið af stöðu á fjármálamörkuðum við árlega endurskoðun reglnanna. Það er afstaða Fjármálaeftirlitsins að sviptingar á fjármálamarkaði séu til þess fallnar að hafa áhrif á vátryggingamarkaði og þar af leiðandi sé ástæða til að taka tillit til aðstæðna þar við endurskoðun kaupaukakerfis.

Fjármálaeftirlitið þakkar veittar umsagnir.

Reglurnar má nálgast hér http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=9e6e6c1a-3d29-4480-aae0-370938b61f9f

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica