Fréttir


Yfirlýsing stjórnar Fjármálaeftirlitsins 1. mars 2012

1.3.2012

Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur í dag kynnt Gunnari Þ. Andersen, forstjóra stofnunarinnar, þá ákvörðun sína að segja upp ráðningarsamningi hans. Þetta er gert að vandlega athuguðu máli og eftir að stjórnin hefur kannað ítarlega gögn og rök í málinu.

Ástæða uppsagnarinnar er að brostnar eru forsendur fyrir því að Gunnar geti gegnt starfinu þar sem á hæfi hans skortir. Þetta verður rakið til fortíðar hans sem eins af framkvæmdastjórum Landsbanka Íslands.

Þar við bætist að í gær bárust stjórn FME ábendingar um Gunnar kynni að hafa brotið af sér í starfi með því að afla sér trúnaðarupplýsinga úr bankakerfinu með ólögmætum hætti. Stjórn FME kærði málið til lögreglu í morgun og Gunnar hætti störfum þegar í stað. Unnur Gunnarsdóttir, yfirlögfræðingur stofnunarinnar, hefur tekið við forstjórastarfi FME tímabundið.

Gunnar veitti á sínum tíma tveimur aflandsfélögum forstöðu á vegum Landsbankans og tók þá þátt í því að veita FME villandi eða beinlínis rangar upplýsingar um tilvist félaganna. Af þeim ástæðum telur stjórn FME hann ekki hæfan til að gegna forstjórastarfi í FME. Vanhæfi af þessu tagi kann til dæmis að vera fyrir hendi þegar FME metur háttsemi eftirlitsskyldra aðila sem grunaðir eru um að veita eftirlitinu ekki fullnægjandi upplýsingar. Eins getur reynt á vanhæfi af þessum toga þegar FME leggur mat á hæfi einstaklinga til að gegna stjórnarstörfum eftirlitsskyldra aðila, sitja í stjórn slíkra aðila og fara með virkan eignarhlut í þeim. Að auki sendir afstaða Gunnars röng og skaðleg skilaboð til aðila markaðarins og starfsmanna FME sem vinna undir stjórn hans.

Forstjórinn fráfarandi hefur sjálfur lýst yfir opinberlega að hann hafi staðið rétt að verki við upplýsingamiðlun gagnvart FME. Afstaða hans, sem þannig birtist, er andstæð þeirri stefnu sem FME markaði eftir hrun fjármálakerfisins um að fylgja því eftir af festu að viðhafðir séu heiðarlegir og eðlilegir viðskiptahættir innan fjármálakerfisins. Hæfi og trúverðugleiki forstjóra FME þarf að vera hafið yfir allan vafa.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica