Fréttir


Frétt: Fjármálaeftirlitið óskar eftir þátttöku vátryggingafélaga í könnun áhrifa Solvency II (QIS)

10.12.2006

Samstarfsnefnd evrópskra eftirlitsaðila á vátryggingasviði (CEIOPS) stendur nú að annarri umferð könnunar á mögulegum áhrifum nýs gjaldþols- og eftirlitsstaðals (Solvency II) sem nú er unnið að á EES. Könnunin gengur undir nafninu QIS (Quantitative Impact Study).

Fjármálaeftirlitið hefur tekið virkan þátt í undirbúningi Solvency II og leggur mikla áherslu á að ná góðri þátttöku íslenskra vátryggingafélaga. Þannig aukast líkur á að Solvency II taki tillit til íslenskra aðstæðna, sem felast t.d. í því að líftryggingafélög hér á landi eru mjög smá í samanburði við líftryggingafélög nágrannalanda okkar. Jafnframt geta vátryggingafélög öðlast aukna þekkingu á nauðsynlegum undirbúningi vegna Solvency II og Fjármálaeftirlitið fær aukna yfirsýn yfir stöðu íslenska vátryggingamarkaðarins sem nýtist í erlendu samstarfi vegna Solvency II.

Fyrsta umferð QIS (QIS1) sem fram fór á tímabilinu 17. október – 31. desember 2005, fólst í að reikna vátryggingaskuld með tilteknum öryggismörkum og fá mynd af því hversu nothæfar aðferðir þær væru sem CEIOPS hefði mælt með í ráðgjöf sinni. Í kjölfarið gaf CEIOPS út skýrslu um niðurstöðurnar.

Í annarri umferð QIS (QIS2) sem nú er hafin verða áhrif á fleiri þætti efnahagsreiknings könnuð. Þannig bætast nú við útreikningar á svonefndri gjaldþolskröfu eða SCR (Solvency Capital Requirement) og lágmarksgjaldþolskröfu eða MCR (Minimum Capital Requirement), samkvæmt þeim leiðbeiningum sem fyrir liggja.

Fjármálaeftirlitið hefur sett upp á heimasíðu sinni upplýsingasíðu vegna QIS2, sjá hér.  Þar er hægt að sækja þau eyðublöð og leiðbeiningar sem nauðsynleg eru fyrir þátttökuna.

Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að félögin fylli eyðublaðið út eins og kostur er. Hægt er að nota nálganir ef nákvæmar upplýsingar liggja ekki fyrir. Jafnframt biður Fjármálaeftirlitið félögin um að svara spurningum í viðbótarspurningalista eins og kostur er. Ef einhverjar spurningar vakna er hægt að beina fyrirspurnum til Fjármálaeftirlitsins. Meðan á könnuninni stendur munu Sigurður F. Jónatansson og  Halldóra E. Ólafsdóttir og taka við fyrirspurnum og eftir þörfum beina þeim áfram til CEIOPS sem tekur afstöðu til álitamála.

Hér má jafnframt sjá fréttatilkynningu CEIOPS.

Gögnum skal skilað til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 31. júlí nk.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica