Fréttir


Frétt: Fjármálaeftirlitið leitar til dómstóla vegna niðurstöðu kærunefndar skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998, nr. 4/2006 um birtingu á viðskiptum félags með eigin bréf.

10.12.2006

Þann 27. júní 2006 í máli nr. 4/2006 komst Kærunefnd skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 að þeirri niðurstöðu að viðskipti útgefenda með eigin bréf, sem skráð hafa verið í Kauphöll Íslands, falli ekki undir birtingarskyld viðskipti skv. 64. gr. laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti (vvl). Telur Kærunefndin í úrskurði sínum að með rýmkandi lögskýringu verði útgefendur að teljast fruminnherjar í skilningi vvl., en ekki stjórnendur í skilningi 64. gr. vvl.

Eru málavextir þeir að félag x átti viðskipti með eigin bréf og telur Fjármálaeftirlitið að samkvæmt 64. gr. vvl. beri útgefanda að senda upplýsingar um slík viðskipti þegar í stað til Kauphallar Íslands. Upplýsingarnar bárust hins vegar ekki Kauphöllinni fyrr en daginn eftir og ákvað stjórn Fjármálaeftirlitsins að sekta félagið um kr. 200.000,- vegna mistakanna. Byggði Fjármálaeftirlitið sektarákvörðun sína á þeim lagagrundvelli að félagið væri fjárhagslega tengt stjórnendum félagsins í skilningi 64. gr. vvl., sbr. skilgreiningu á fjárhagslega tengdum aðilum í 16. gr. reglna um  meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 670/2005. Er þessi niðurstaða í samræmi við sameiginlega túlkun Fjármálaeftirlitsins og Kauphallar Íslands á 64. gr. vvl. og almenna markaðsframkvæmd á tilkynningum um viðskipti með eigin bréf. Rökin fyrir því að tilkynna beri opinberlega í Kauphöll um viðskipti félags með eigin bréf eru þau, að slík viðskipti geti haft verðmótandi áhrif fyrir viðkomandi félag á sama hátt og viðskipti stjórnenda og þ.a.l. nauðsynlegt að allir hafi jafnan aðgang að slíkum upplýsingum. Telur Fjármálaeftirlitið það geta haft slæm áhrif fyrir markaðinn ef viðskipti með eigin bréf eru ekki birt í Kauphöll og hefur af þeirri ástæðu tekið ákvörðun um að leita til dómstóla til staðfestingar skilningi sínum á 64. gr. vvl. Beinir Fjármálaeftirlitið því til skráðra félaga að halda áfram uppteknum hætti varðandi upplýsingar til Kauphallar Íslands um viðskipti með eigin bréf þar til endanleg niðurstaða fæst í málinu, en brot á upplýsingaskyldunni varðar stjórnvaldssektum, sbr. 74. gr. vvl. eða sektum í refsimáli, sbr. 75. gr. vvl.

Nánari röksemdafærsla:
Samkvæmt 63. gr. vvl. ber útgefanda verðbréfa að tilkynna samdægurs um viðskipti fruminnherja til Fjármálaeftirlitsins. Er hér um að ræða tilkynningarskyldu í eftirlitsskyni, þ.e. til að Fjármálaeftirlitið geti fylgst með hvort viðskipti fruminnherja fari mögulega á svig við ákvæði um meðferð innherjaupplýsinga. Fruminnherjar hafa stöðu sinnar vegna að jafnaði meiri aðgang að upplýsingum um afkomu og framtíðarhorfur útgefanda en almennir fjárfestar og því hefur mat löggjafans verið að fylgjast þurfi sérstaklega með viðskiptum þessara aðila.

Í 64. gr. vvl. er síðan kveðið á um að auk tilkynninga um viðskipti innherja skv. 63. gr. vvl. ber útgefanda þegar í stað að senda upplýsingar um viðskipti stjórnenda útgefanda til skipulegs verðbréfamarkaðar (Kauphallar Íslands hf.). Kauphöll Íslands skal síðan birta upplýsingarnar opinberlega, fari viðskiptin yfir ákveðna fjárhæð. Í athugasemdum við greinina í greinargerð með lögum nr. 31/2005 segir að mikilvægi slíkra tilkynninga sé tvíþætt. Annars vegar séu upplýsingarnar mikilvægar í eftirlitsskyni, sbr. framangreint. Hins vegar geta slíkar upplýsingar haft verðmótandi áhrif fyrir viðkomandi félag.

Í 3. mgr. 64. gr. vvl. er skilgreint hverjir teljist stjórnendur í skilningi laganna. Er með stjórnendum átt við stjórnarmenn, forstjóra, framkvæmdastjóra, eftirlitsnefndir og aðra stjórnendur sem eru fruminnherjar hjá útgefanda og hafa umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu útgefandans. Hið sama á við um aðila fjárhagslega tengda framangreindum stjórnendum.

Fjárhagslega tengdir aðilar eru ekki skilgreindir í verðbréfaviðskiptalögunum. Er Fjármálaeftirlitinu falið í 6. tl. 5. mgr. 73. gr. vvl. að skilgreina þá í reglum sínum. Í 16. gr. reglna um  meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 670/2005 er að finna skilgreiningu á fjárhagslega tengdum aðilum. Samkvæmt 4. tl. greinarinnar skulu eftirtaldir aðilar teljast fjárhagslega tengdir innherjum og þ.a.l. teljast stjórnendur í skilningi 64. gr. vvl.:
a) lögaðili sem lýtur framkvæmdastjórn innherja
b) lögaðili sem er stjórnað með beinum eða óbeinum hætti af innherja
c) lögaðili annar en í lið a eða b ef fjárhagslegir hagsmunir hans eru samtvinnaðir hagsmunum innherja

Telur Fjármálaeftirlitið einsýnt að útgefandinn sjálfur er fjárhagslega tengdur aðili í skilningi vvl. Útgefandinn lýtur framkvæmdastjórn innherja, er stjórnað með beinum hætti af innherja og fjárhagslegir hagsmunir útgefanda eru óneitanlega samtvinnaðir hagsmunum innherja.

Með vísan til framangreinds telur Fjármálaeftirlitið að fyrrgreind niðurstaða Kærunefndar skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 í máli nr. 4/2006 fái ekki staðist. Telur Fjármálaeftirlitið að 64. gr. vvl. lesin með hliðsjón af 16. gr. reglna um  meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 670/2005 sé skýr um að viðskipti með eigin bréf beri að tilkynna skv. 64. gr. vvl.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica