Fréttir


Athugasemd Fjármálaeftirlitsins vegna ummæla umboðsmanns skuldara

22.2.2012

Í tilefni umfjöllunar í Kastljósi mánudaginn 20. febrúar og einkum vegna viðtals við umboðsmann skuldara um málefni Dróma hf., Frjálsa fjárfestingarbankann og Spron vill Fjármálaeftirlitið taka eftirfarandi fram.

Fjármálaeftirlitið hefur verið í samskiptum við umboðsmann skuldara að undanförnu vegna kvartana og fyrirspurna sem Umboðsmaður skuldara vinnur við sem tengjast eftirlitsskyldum aðilum. Fjármálaeftirlitið telur sér óheimilt að ræða málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila á meðan mál eru í athugun, en birtir svonefndar gagnsæistilkynningar á vefsíðu sinni um niðurstöðu mála. Á þessu stigi er ekki tímabært að birta opinberlega upplýsingar um starfshætti umræddra aðila ellegar ráðstafanir eftirlitsins.

Rétt er að Fjármálaeftirlitið hefur átt fundi með umboðsmanni skuldara og átt í bréfaskiptum við hann vegna þessa. Haldinn var fundur að ósk umboðsmannsins þ. 15. júlí 2011 þar sem þessi mál voru rædd og í lok fundar ákveðið að umboðsmaður myndi framsenda erindi til FME vegna málsins þegar það væri talið eiga við. Ekki bárust mörg erindi í framhaldi af þeim fundi. Nýverið óskaði umboðsmaður enn eftir fundi og var orðið við þeirri beiðni í sl. viku. Eftirlitið óskaði eftir fyllri upplýsingum frá umboðsmanni varðandi þær kvartanir og fyrirspurnir sem hann hefur fengið að undanförnu. Að fengnum þeim viðbótarupplýsingum (greinagerð) mun eftirlitið meta stöðuna þ.á m. hvort tilefni sé til sérstakrar skoðunar og/eða ráðstafana.

Fjármálaeftirlitið getur staðfest að það vinnur við athugun á nokkrum fjölda erinda vegna  eftirlitsskyldra aðila, þ.á m. Dróma hf., sem borist hafa að undanförnu varðandi starfshætti. Ýmist er um kvartanir eða fyrirspurnir að ræða. Fjallað er um endurútreikning lána, samskipti, upplýsingagjöf og verðmat fasteigna.

Fjármálaeftirlitið hefur þannig eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar starfi í samræmi við heilbrigða viðskiptahætti. Þrátt fyrir þetta verður að hafa hugfast, sbr. síðari umfjöllun, að eftirlitið hefur ekki úrskurðarvald í ágreiningsmálum viðskiptavina og eftirlitsskyldra aðila. Nánar er gerð grein fyrir fyrirkomulagi á afgreiðslu fyrirspurna og kvartana á heimasíðu eftirlitsins www.fme.is.

Almennt varðandi neytendavernd:

Fjármálaeftirlitið fylgist með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila, þ.á m. vátryggingafélaga, lánafyrirtækja og slitastjórna (sbr. nefnd ákvæði) sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Hins vegar hefur eftirlitið, sem fyrr segir, ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti. Allar ábendingar og kvartanir sem berast eftirlitinu eru metnar og skoðað hvort tilefni sé til nánari athugunar. Telji eftirlitið ástæðu til að taka mál til athugunar er það gert á grundvelli almenns eftirlits. Þetta þýðir að þrátt fyrir að kvörtun eða ábending leiði til slíkrar athugunar telst sá hinn sami ekki aðili máls og ekki er víst að athugun leiði sjálfkrafa til lausnar á úrlausnarefni hans.

Eftirlit Fjármálaeftirlitsins beinist fyrst og fremst að því að tryggja fjárhagslegt heilbrigði fjármálafyrirtækja og annarra aðila sem því er falið að hafa eftirlit með og miðar þannig að því að viðhalda styrk og öryggi einstakra eftirlitsskyldra aðila, varðveita fjármálastöðugleika og trúverðugleika fjármálamarkaðarins. Samhliða og nátengt hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að hafa eftirlit með viðskiptaháttum gagnvart notendum fjármálaþjónustu. Það liggur hins vegar fyrir, eins og að framan getur, að Fjármálaeftirlitið hefur ekki heimild til að taka á málum einstakra neytenda, heldur skoðar málin á almennum grundvelli, en vissulega verða ábendingar neytenda oft til þess að skoðun á viðskiptaháttum eftirlitsskylds aðila fer af stað.

Upplýsinga- og leiðbeiningaþjónusta:

Fjármálaeftirlitið veitir viðskiptavinum eftirlitsskyldra aðila upplýsingar og leiðbeiningar í síma 520 3700 á þriðjudögum kl. 10-11 og fimmtudögum kl. 14-15. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fyrirspurn@fme.is

Úrskurðarnefndir:

Fjármálaeftirlitið vistar úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið tekur við málskotum neytenda, sér nefndunum fyrir fundaraðstöðu og annast almennt skrifstofuhald fyrir þær, en nefndirnar eru sjálfstæðar og heyra undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Samningar eru í gildi á milli ráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins um þjónustu við nefndirnar.

 

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica