Fréttir


Frétt: Fjármálaeftirlitið gefur út leiðbeinandi tilmæli um álagspróf vátryggingafélaga og upplýsingagjöf um áhættustýringu, þ.á m. álagspróf

10.12.2006

Í framhaldi af birtingu umræðuskjals nr. 3/2005, hefur Fjármálaeftirlitið nú gefið út leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2006. Fjármálaeftirlitið telur mikilvægt að styrkja áhættustýringu vátryggingafélaga og efla eftirlit með henni í ljósi m.a.:

  • aukinnar fjölbreytni í fjárfestingum
  • flóknari eignatengsla
  • aukinnar erlendrar starfsemi.

Tilmælin eru þríþætt. Í fyrsta lagi fela þau í sér að Fjármálaeftirlitið framkvæmir staðlað álagspróf og flokkar vátryggingafélög eftir því hvernig þau standast fyrirframgefin áföll. Álagsprófið á fyrirmynd í áhættumatskerfi sem notað hefur verið fyrir fjármálafyrirtæki (reglur nr. 530/2004) en við bætast próf vegna áfalla sem tengjast vátryggingastarfsemi.

Hinir tveir hlutar fyrirhugaðra tilmæla fjalla annars vegar um eigin álagspróf vátryggingafélaga og hins vegar um almenna upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu, sem verður á sérstöku eyðublaði.

Þessir þrír hlutar verða mismunandi stoðir í eftirliti Fjármálaeftirlitsins með áhættustýringu vátryggingafélaga. Stöðluðu álagsprófi er ætlað að gefa vátryggingafélögum og Fjármálaeftirlitinu einfalda mynd af því á hvaða sviði áhætta félagsins liggur helst og hversu mikil hún er. Skriflegar upplýsingar um áhættustýringu munu veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um hvernig vátryggingafélög mæla og bregðast við sinni áhættu og loks er félögunum ætlað að framkvæma eigin álagspróf eftir því hvar áhættur þeirra liggja og auka þar með yfirsýn sína yfir áhættu félagsins.

Staðlað álagspróf Fjármálaeftirlitsins mun koma til framkvæmda á árinu 2006 en vátryggingafélög hafa frest til ársloka 2007 til að skilgreina þörf á og skipuleggja eigin álagspróf.

Vátryggingafélög þurfa að senda Fjármálaeftirlitinu eyðublað um framkvæmd áhættustýringar eigi síðar en 31. október 2006. Eyðublað þetta mun frá og með árinu 2007 verða hluti af reglubundnum gagnaskilum vátryggingafélaga til Fjármálaeftirlitsins.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica