Fréttir


Álitsgerð Ástráðs og Ásbjörns

18.2.2012

Meðfylgjandi er greinargerð um athugun sem Ásbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi, og Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður unnu að ósk stjórnar FME um hæfi forstjóra stofnunarinnar (sjá hér).  Á þremur stöðum er strikað yfir upplýsingar sem trúnaður skal ríkja um, lögum samkvæmt.

Eftirfarandi skal nefnt af gefnu tilefni:

  1. Opinber umfjöllun nú um tiltekið ferli, sem er í gangi innan FME, er ekki að frumkvæði stjórnar FME. Það veldur vonbrigðum að málið sé gert opinbert áður en niðurstaða er fengin. Að sjálfsögðu er eðlilegt að ákvarðanir, sem teknar kunna að verða, séu fyrst kynntar starfsfólki FME og síðan almenningi.
  2. Úr því sem komið er þykir eðlilegt að birta álitsgerð Ásbjörns og Ástráðs núna. Greinargerðin talar fyrir sig sjálf, stjórn FME mun ekki tjá sig um hana fyrr en því ferli er lokið sem yfir stendur.
  3. Þess hefur verið gætt á öllum stigum máls að forstjóri FME fái upplýsingar um vinnslu álitsgerða um hæfi hans og njóti réttar til ábendinga og andmæla.
  4. Í tíð fyrri stjórnar hafði Andri Árnason hrl. skilað greinargerð, dags. 10. nóvember 2010, um hæfi forstjóra FME í tilefni af umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um viðskipti Landsbanka Íslands hf. (LB) og félagsins LB Holding með hlutabréf Kaupþings banka hf. á árinu 2001 og í tilefni af upplýsingum um viðskipti Landsbankans og félagsins NBI Holdings Ltd. með hlutabréf í NN á árinu 2001. Gunnar Þ. Andersen (GÞA), forstjóri FME, var stjórnarformaður LB Holding og NBI Holdings. Þáverandi stjórn FME fjallaði um álit Andra og sá ekki ástæðu til að aðhafast frekar.
  5. Kastljós RÚV fjallaði um mál GÞA og FME 17. nóvember 2011 og hélt því fram að nýjar upplýsingar hefðu komið fram um hæfi forstjórans. Núverandi stjórn FME óskaði í framhaldinu eftir því að Andri Árnason hrl. færi yfir staðhæfingar í Kastljósi og mæti hvort eitthvað í umfjöllun þar breytti efnislega áliti hans frá nóvember 2010. Á sama tíma var ákveðið og kynnt að tveir sérfræðingar yrðu fengnir til að rýna álitsgerðir Andra og gefa sjálfstætt álit.
  6. Andri Árnason skilaði nýju áliti 13. janúar 2012 og stóð að öllu leyti við fyrri niðurstöður sínar um hæfi forstjórans. Hann taldi umfjöllun Kastljóss á misskilningi byggða og hún væri að hluta byggð á röngum forsendum.
  7. Stjórn FME ákvað 13. janúar 2012 að fela Ásbirni Björnssyni og Ástráði Haraldssyni að fara yfir álit Andra og gögn málsins og gefa sjálfstætt álit á hæfi forstjóra FME.
  8. Stjórn FME fjallar nú um málið. Ákvarðanir hafa ekki verið teknar um lyktir þess.

 

Aðalsteinn Leifsson,
formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins (FME) f.h. stjórnar FME

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica