Fréttir


FME: Skýrar starfsreglur stjórna fjármálafyrirtækja efla traust íslensks fjármálamarkaðar

10.12.2006

“Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um að fjármálafyrirtæki leggi fyrir ytri endurskoðanda að fara yfir fyrirgreiðslur til venslaðra aðila og bera saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina”. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri útgáfu leiðbeinandi tilmæla um efni starfsreglna stjórna fjármálafyrirtækja sem FME hefur birtir  á heimasíðu sinni. Samkvæmt tilmælunum skal ytri endurskoðandi jafnframt gefa rökstutt álit um kjör, endursamninga og stöðu viðkomandi aðila gagnvart fyrirtækinu, þ.e. hvort armslengdarsjónarmiða hafi verið gætt við afgreiðslu málsins.

FME fer fram á að fjármálafyrirtæki þar sem niðurstaða efnahagsreiknings samstæðu er yfir 50 milljarðar sendi skýrslur ytri endurskoðanda vegna slíkra úttekta árlega en að önnur fyrirtæki sendi slíkar skýrslur annað hvert ár.

Leiðbeinandi tilmælum FME er m.a. ætlað að skýra framkvæmd einstakra ákvæða í lögum um fjármálafyrirtæki (161/2002). Þar kemur fram að stjórnir fjármálafyrirtækja skuli setja sér starfsreglur þar sem einkum skal fjallað um hæfi stjórnarmanna, meðferð stjórnar á upplýsingum um einstaka viðskiptamenn, setu stjórnarmanna í stjórnum dótturfyrirtækja og hlutdeildarfélaga og framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna.

Í tilmælum FME segir einnig að starfsreglur stjórna fjármálafyrirtækja skuli kveða skýrt á um það að í þeim tilvikum þegar stjórnarmenn taka ekki þátt í meðferð máls vegna hagsmunatengsla skuli þeir víkja af fundi og ekki fá aðgang að gögnum er varða viðkomandi mál, skal slíkt bókað í fundargerð.

Tilgangurinn með starfsreglum stjórna fjármálafyrirtækja er að tryggja skýrleika í málsmeðferð ásamt því að styrkja umgjörð um viðskipti stjórnarmanna, félaga þeim tengdum, og venslaðra aðila, við fjármálafyrirtækið og aðgang stjórnarmanna að upplýsingum um viðskiptamenn. Eru slíkum reglum einnig ætlað að efla traust íslensks fjármálamarkaðar.

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, segir mikilvægt að íslensku fjármálafyrirtækin séu í fararbroddi hvað varðar góða stjórnarhætti og gegnsæja eftirfylgni við innri reglur. “Ein leið til þess að tryggja góða stjórnarhætti er að eigendur fjármálafyrirtækja gæti þess að viðskiptatengsl byggi á armslengdarsjónarmiðum og hugi vel að hæfiskröfum sjálfra sín við töku einstakra ákvarðanna. Mikilvægi þessa verður seint undirstrikað þegar íslensku fyrirtækin verða sífellt alþjóðlegri”, segir forstjóri FME.

Leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2006.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica