Fréttir


FME: Vanskil í lágmarki, en þokast upp á við

10.12.2006

Hlutfall vanskila af útlánum innlánsstofnanna var tæplega 0,7% í lok þriðja ársfjórðungs 2006, sem er lítillega hærra en það var í lok næstu ársfjórðunga á undan, en þá var þetta hlutfall um 0,6%. Í lok 3. ársfjórðungs 2005 var hlutfallið 0,9% og hafði þá ekki verið lægra frá árslokum 2000. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti Fjármálaeftirlitsins um vanskil útlána hjá innlánsstofnunum miðað við lok september 2006 og samanburð við næstu ársfjórðunga á undan. Talnaefnið nær til vanskila sem staðið hafa lengur en 1 mánuð.

Um er að ræða brúttó vanskil, þ.e. ekki hafa verið dregnar frá fjárhæðir sem lagðar hafa verið til hliðar sem sérstakar afskriftir. Sýnd er þróun vanskila frá árslokum 2000. Vanskila-upplýsingarnar sýna tölur fyrir innlánsstofnanir án dótturfélaga þeirra.
Á yfirlitinu eru ennfremur sýnd vanskilahlutföll með annars vegar eins árs tímatöf og hins vegar tveggja ára tímatöf og er þannig tekið tillit til áhrifa mikillar útlánaaukningar síðustu misseri á hlutfallstölurnar. Vanskilahlutföllin mæld á síðastnefndu mælikvarðana eru 1,0% og 1,6% af útlánum sem eru sambærileg hlutföll og voru í lok næstu ársfjórðunga á undan. Í lok 3. ársfjórðungs 2005 voru sambærileg hlutföll 1,5% og 2,0%. Athuga ber að útlánaaukningin á undanförnum misserum  kann að koma fram í auknum vanskilum síðar. Hafa ber í huga að þátttaka innlánsstofnana í fasteignalánum frá og með seinni hluta ársins 2004 kann að hafa haft áhrif á þróun vanskila sem sýnd er á yfirlitinu, einkum vanskilahlutfall einstaklinga.

Vanskilahlutfall fyrirtækja er 0,6% sem er lítillega hærra en var í lok næstu ársfjórðunga á undan þegar hlutfallið var rúmlega 0,5%. Í lok 3. ársfjórðungs 2005 var hlutfallið 0,7%. Vanskilahlutföll fyrirtækja miðað við annars vegar eins árs tímatöf og hins vegar tveggja ára tímatöf eru 0,9% og tæplega 1,4% sem eru sambærileg hlutföll og voru í lok næstu ársfjórðunga á undan. Í lok 3. ársfjórðungs 2005 voru sambærileg hlutföll 1,1% og tæplega 1,6%.

Vanskila hlutfall einstaklinga er tæplega 1,0% sem er lítillega hærra en í lok 2. ársfjórðungs en svipað og var í lok næstu ársfjórðunga þar á undan. Í lok 3. ársfjórðungs 2005 var hlutfallið 1,5%. Vanskilahlutföll einstaklinga miðað við eins og tveggja ára tímatöf eru 1,4% og 2,8% sem er svipað og var í lok 2. ársfjórðungs. Í lok 3. ársfjórðungs 2005 voru sambærileg hlutföll 3,1% og tæplega 3,8%.
 
Hafa verður í huga við lestur yfirlitanna að í árslok hvers árs eru færð út endanlega afskrifuð útlán sem koma til lækkunar á brúttó vanskilafjárhæðum og hafa þannig áhrif á vanskil í lok 4. ársfjórðungs og samanburð við næstu ársfjórðunga á undan.

Ragnar Hafliðason hjá Fjármálaeftirlitinu segir að vanskil útlána hjá innlánsstofnunum í lok 3. ársfjórðungs 2006 eru hlutfallslega lág samanborið við undangengin ár. ”Tölurnar sýna þó að vanskilahlutfall bæði fyrirtækja og einstaklinga eru að aukast lítillega samanborið við næstu ársfjórðunga á undan”.

Vanskil útlána hjá innlánsstofnunum í lok 3. ársfjórðungs 2006.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica