Fréttir


Fjármálaeftirlitið höfðar dómsmál vegna myndunar virks eignarhlutar

10.12.2006

Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur ákveðið að höfða dómsmál til að fá ógilta úrskurði kærunefndar frá júlí/ágúst 2006, þess efnis að eftirlitinu hafi verið óheimilt að takmarka atkvæðisrétt ákveðinna einstaklinga í Sparisjóði Hafnarfjarðar við 5%.

Fjármálaeftirlitið er ósammála niðurstöðum kærunefndar og telur rökstuðningi áfátt.  Í málinu reynir á mikilvæg atriði fyrir íslenskan fjármálamarkað sem snýr að virkni lagaákvæða og getu eftirlitsins til þess að framfylgja lögum um fjármálafyrirtæki.   Er þar einkum átt við:

  • Sönnunarkröfur vegna myndunar virks eignarhlutar þegar aðilar neita samstarfi, en ýmis önnur gögn og aðstæður benda til samstarfs aðila.  Þetta atriði getur skipt máli fyrir mat erlendra aðila á gegnsæi eignatengsla á íslenskum markaði.
  • Sérstök ákvæði um dreifða eignaraðild og meðferð stofnfjár  í sparisjóðum.
  • Samskipti og samstarf Fjármálaeftirlitsins og Ríkislögreglustjóra varðandi réttarvörslu á íslenskum fjármálamarkaði.  Að mati Fjármálaeftirlitsins hafa þessir aðilar sitt hvoru hlutverkinu að gegna og hafa mismunandi úrræði.   Rannsóknir hvors um sig beinast að mismunandi þáttum þó að sami aðilinn kunni að sæta rannsókn. Þetta er í samræmi við túlkun áfrýjunarnefndar samkeppnismála í olíusamráðsmálinu (3/2004).

Málavextir eru í stuttu máli þeir að í kjölfar athugunar komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að virkur eignarhlutur hefði myndast í Sparisjóði Hafnarfjarðar í andstöðu við lög.  Í framhaldi af því var atkvæðisréttur þeirra stofnfjáreigenda sem taldir voru mynda hina virku eignarhluti takmarkaður við 5%, sbr. sérákvæði um sparisjóði í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.   Meirihluti þessara aðila kærðu ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins til sérstakrar kærunefndar sem felldi þær úr gildi.

Í lögum um fjármálafyrirtæki kemur fram að aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki (10%) skuli leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram.  Tilgangurinn með þessum lagaákvæðum er almennt sá að draga úr hættu á því að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fyrirtækjanna eða fjármálamarkaðarins í heild.   Reglur þessar eru af samevrópskum stofni og eftirfylgni þeirra ein af forsendum gagnkvæmrar viðurkenningar á starfsleyfum fjármálafyrirtækja á milli aðildarríkja EES.

Sérstök ákvæði eru í lögum um virkan eignarhlut í sparisjóðum sem miða m.a. að því að tryggja dreifða eignaraðild.  Þannig skal enginn aðili fara með meira en 5% atkvæðisréttar og einungis er hægt að mynda virkan eignarhlut í tveimur undantekningartilvikum er snúa að fjárhagslegri endurskipulagningu eða aukinni samvinnu sparisjóða.   Ástæður þessa eru
þær að löggjafinn hefur talið grundvallarmun vera á stofnfé í sparisjóði og hlutafé í hlutafélagi þar sem stofnfjáreign jafngildi ekki hlutdeild í eigin fé sparisjóðs með sama hætti og hlutafjáreign felur í sér.  Í mörgum sparisjóðum nemur stofnfé einungis litlum hluta heildareiginfjár, en meirihluti eigin fjár (sem ekki telst til stofnfjár) er í eigu sparisjóðsins sjálfs.

Varðandi myndun virks eignarhlutar í Sparisjóði Hafnarfjarðar þá neituðu flestir aðilar að hafa átt í samstarfi en að mati Fjármálaeftirlitsins tengdust nokkrir þeirra í gegnum uppkaup á stofnfjárhlutum og peningagreiðslum af bankareikningi ákveðinnar lögmannsstofu.   Virðast greiðslur á hátt í tvo milljarða króna hafa verið greiddar í tengslum við málið. 

“Það er okkar mat að í máli þessu reyni á grundvallarþætti varðandi hlutverk og getu FME til að stuðla að traustri fjármálastarfsemi í landinu. Vegna þessa hefur stjórn Fjármálaeftirlitsins ákveðið að höfða dómsmál til ógildingar á umræddum úrskurði kærunefndar”, segir Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Frekari upplýsingar veitir:
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, sími 525 2700 .

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica