Fréttir


Fjármálaeftirlitið gefur út umræðuskjal um hvernig meðhöndla eigi áhrif breytinga á skulda- og eiginfjárliðum vátryggingafélaga við upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS)

7.12.2006

Fjármálaeftirlitið birtir hér með til umsagnar umræðuskjal nr. 1/2006  sem eru drög að leiðbeinandi tilmælum um hvernig meðhöndla eigi áhrif breytinga á skulda- og eiginfjárliðum vátryggingafélaga við upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS). Umsagnarfrestur er til 15. mars nk.

Tilmælin eru ætluð vátryggingafélögum sem hafa nú þegar eða munu í framtíðinni gera upp samkvæmt IFRS. Markmiðið er að takmarka þau áhrif sem breytingar á skulda og eiginfjárliðum gætu haft á gjaldþolsstöðu vátryggingafélaga.

Þessar aðgerðir sem kallast á ensku "prudential filters" hafa verið teknar upp sameiginlega á EES og er þeim ætlað að koma í veg fyrir að hækkun gjaldþols vegna IFRS leiði til að fjármálaeftirliti sjáist yfir hættumerki í starfsemi vátryggingafélaga. Aðgerðirnar eru í samræmi við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi sem kveður á um að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að lækka gjaldþolsliði frá mati félags samkvæmt 29.-33. gr. laganna.

Meðal atriða sem gætu leitt til hækkunar eigin fjár eru hækkun eigna vegna þess að eignir (einkum hlutabréf) sem áður voru gerðar upp á kostnaðarvirði eru nú gerðar upp á gangvirði (fair value), sem samsvarar markaðsvirði og að liðurinn útjöfnunarskuld hverfur úr skuldalið efnahagsreiknings og flyst í eigið fé.

Fjármálaeftirlitið mun ekki lækka gjaldþol vegna fyrrnefndu breytinganna, þar sem uppgjör á kostnaðarvirði getur falið í sér duldar eignir fyrir félögin. Hins vegar mun eftirlitið fara fram á að vátryggingafélög dragi það sem áður taldist til útjöfnunarskuldar frá gjaldþoli. Gert er ráð fyrir að sá þáttur tilmælanna hafi mest áhrif.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Freyr Jónatansson í síma 525-2731.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica