Fréttir


Fjármálaeftirlitið gefur út leiðbeinandi tilmæli um hvernig meðhöndla eigi áhrif breytinga á skulda- og eiginfjárliðum vátryggingafélaga við upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS

7.12.2006

Tilmælin eru ætluð vátryggingafélögum sem hafa nú þegar eða munu í framtíðinni gera upp samkvæmt IFRS. Markmiðið er að samræma gjaldþolskröfur þannig að ekki skipti máli hvaða uppgjörsaðferð er notuð, með því að takmarka þau áhrif sem breytingar á skulda- og eiginfjárliðum gætu haft á gjaldþolsstöðu vátryggingafélaga.  Þessar takmarkandi aðgerðir kallast á ensku “prudential filters. Tilmælin gilda vegna uppgjöra frá og með uppgjörsárinu 2006.

Tilmælin kveða á um að leiðrétta þarf gjaldþol vegna eftirfarandi þátta sem gætu haft áhrif á efnahagsreikning vátryggingafélags við upptöku IFRS, hafi breytingarnar áhrif sem nemur a.m.k. 1% af fyrra gjaldþoli:

  • Lækkun vátryggingaskuldar og hækkun eigin fjár vegna þess að samningar sem áður töldust vátryggingarsamningar uppfylla ekki skilyrði IFRS 4 um skilgreiningu á vátryggingarsamningi.

 

  • Hækkun eða lækkun uppgjörsvirðis fjárfestinga og fasteigna sem áður voru gerðar upp á markaðsvirði en gera skal upp á kostnaðarvirði samkvæmt IFRS.

 

  • Hagnaður eða tap sem myndast vegna breytinga á eigin lánshæfismati eða vaxtaálagi vátryggingafélags.
    Hækkun eigin fjár vegna þess að hluti ágóðajöfnunarskuldar hefur verið fluttur í eigið fé.

Eftirfarandi þættir hafa eða gætu haft meiri áhrif á efnahagsreikning íslenskra vátryggingafélaga. FME metur það hins vegar svo að þær breytingar gefi réttari mynd af fjárhagsstöðu félaganna og mun því ekki fara fram á leiðréttingar á gjaldþoli vegna þessara þátta:

  • Hækkun eigin fjár af völdum óinnleysts fjármagnshagnaðar við að fjáreignir og fasteignir sem áður voru færðar á kostnaðarvirði séu færðar á gangvirði.

 

  • Hækkun eigin fjár vegna þess að útjöfnunarskuld hefur verið flutt í eigið fé. Tilskipunum ESB hefur verið breytt þannig að ekki er lengur almennt heimilt að vera með útjöfnunarskuld í efnahagsreikningi.

 

  • Vátryggingafélög sem slíkt kjósa geta þess í stað haft útjöfnunarsjóð sem telst til liða eigin fjár.

 

  • Hækkun gjaldþols vegna þess að vátryggingafélag hefur tekið upp nýja aðferð við mat á vátryggingaskuld sem uppfyllir skilyrði IFRS 4 og reglur FME nr. 903/2004 um mat á tjónaskuld og gagnaskil í því sambandi.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Freyr Jónatansson í síma 525-2731.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica