Fréttir


Staða lífeyrissjóðanna árið 2010

22.9.2011

Á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins er að finna skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2010. Þar er jafnframt að finna excel skjal sem inniheldur talnaefni skýrslunnar. Skýrslan í heild sinni er hér en helstu niðurstöður hennar eru eftirfarandi:

Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna, sameignar- og séreignardeilda, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu, var 2,65% samanborið við 0,34% á árinu 2009. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár var -1,6% og meðaltal sl. 10 ára var 2,2%. Raunávöxtun sjóðanna fer því batnandi þrátt fyrir að margir sjóðir glími enn við eftirköst bankahrunsins.

Frett.22.09.2011.Mynd1
 

Heildareignir lífeyrissjóðanna námu tæplega 1.910 milljörðum króna í árslok 2010 samanborið við um 1.775 milljarða í árslok 2009. Nemur aukningin um 7,6% sem samsvarar jákvæðri raunaukningu upp á 5% miðað við vísitölu neysluverðs.

Iðgjöld lífeyrissjóðanna hækkuðu um tæp 3% á milli ára eða úr 107 milljörðum króna í árslok 2009 í rúmlega 110 milljarða króna í árslok 2010. Gjaldfærður lífeyrir ásamt útgreiðslu séreignarsparnaðar var rúmlega 71 milljarður króna árið 2010 en var 76 milljarðar króna árið 2009. Útgreiðslur vegna tímabundins bráðabirgðaákvæðis námu tæpum 15 milljörðum króna árið 2010 samanborið við tæpa 22 milljarða króna árið áður.

Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2010 jókst um 9% og nam 314 milljörðum króna samanborið við 288 milljarða í árslok 2009. Séreignarsparnaður í heild nam um 15,5% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2010. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu á milli ára og fóru úr tæpum 27 milljörðum króna í 29 milljarða króna á árinu 2010.

Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skal vera jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga samtryggingadeilda lífeyrissjóða. Komi í ljós við tryggingafræðilega athugun að munur á eignum og skuldbindingum sé yfir 10% eða meiri en 5% samfellt í fimm ár ber lífeyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að ná jafnvægi milli eigna og skuldbindinga. Þann 28. desember 2010 var með 41. gr. laga nr. 165/2010 um breytingu á lögum nr. 129/1997, framlengt bráðabirgðaákvæði VI, sem heimilaði lífeyrissjóðum að hafa allt að 15% mun á milli eignaliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2010, án þess að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. 21 deild lífeyrissjóða án ábyrgðar voru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu í árslok 2010, en engin með halla yfir 15%. Þeir lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis eða sveitarfélags eru undanþegnir ákvæðum laganna sem fjalla um jafnvægi milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Lítil breyting er á stöðu þessara sjóða á milli ára en verulegur halli er nánast hjá þeim öllum.

 Frett.22.09.2011.Mynd2

Á árinu 2010 var nýjum kafla um tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna bætt við skýrsluna. Kaflinn byggir á gögnum sem koma fram í tryggingafræðilegri athugun sjóðanna og þar er m.a. að finna lýsingu á áfallinni stöðu og framtíðarstöðu sjóðanna. Einnig er þar að finna tölulegar upplýsingar um iðgjöld og iðgjaldagreiðendur, lífeyri og lífeyrisþega.

Um 8,9% af fjárfestingum lífeyrissjóðanna voru í óskráðum bréfum í árslok 2010 samanborið við um 7,4% í árslok 2009. Með óskráðum bréfum er átt við þau verðbréf sem ekki hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Þann 29. desember 2008 var heimild til að fjárfesta í óskráðum bréfum hækkuð úr 10% í 20% af hreinni eign lífeyrissjóðs. Gengisbundnar fjárfestingar námu 25% af heildareignum lífeyrissjóðanna, í árslok 2010 en 30% í árslok 2009.

Á myndinni hér að neðan sést skipting eignasafna lífeyrissjóðanna m.v. 31.12.2010 og 31.12.2009, en athygli vekur að eign í ríkisvíxlum og skuldabréfum jókst mikið á milli ára en eign í hlutabréfum lækkaði. Meginástæða þess er talin vera sú að lífeyrissjóðirnir gerðu samning við Seðlabanka Íslands um kaup á ríkistryggðum íbúðarbréfum og greiddu fyrir þau með evrum. Takmarkaðir fjárfestingarkostir, m.a. vegna gjaldeyrishafta hér á landi, kunna auk þessa að skýra aukið hlutfall ríkistryggðra eigna í safni sjóðanna.

Frett.22.09.2011.Mynd3
Athygli skal vakin á því að skýrslan verður aðeins birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Heimilt er að nota efni úr ritinu, enda sé heimilda getið.

Ársreikningabók 2010

Töflur úr ársreikningabók 2010

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica