Fréttir


Þáttur Fjármálaeftirlitsins í rannsókn breska fjármálaeftirlitsins (FSA)

29.8.2011

Breska fjármálaeftirlitið (FSA) sagði frá því fyrir stuttu, í frétt á heimasíðu eftirlitsins, að þrír menn hefðu hlotið dóm sem nemur samtals 19 ára fangelsisvist fyrir svonefnd boiler room, eða kyndiklefasvik. Var þetta afrakstur langrar og nákvæmrar rannsóknar breska fjármálaeftirlitsins.

Málið snerist um hóp kyndiklefa sem svindluðu á 1700 fjárfestum og sviku út 27,5 milljónir punda eða rúma fimm milljarða króna. Haft er eftir Tracey McDermott, sem er framkvæmdastjóri á sviði viðurlagamála hjá FSA, að þessir dómar séu mikilvægir. Þeir marki nýjan sigur í hinni stöðugu baráttu gegn kyndiklefasvikum.

Í frétt FSA er Fjármálaeftirlitsins á Íslandi getið sem aðila sem FSA segist hafa reitt sig á nána samvinnu við og stuðning frá. Fréttina má í heild sinni má sjá hér: https://webarchive.nationalarchives.gov.uk/ukgwa/20170307090007/http://www.fsa.gov.uk/pages/Library/Communication/PR/2011/073.shtml

Þáttur Fjármálaeftirlitsins á Íslandi í rannsókn breska fjármálaeftirlitsins (FSA), sem leiddi til sakfellingar yfir Tomas Wilmot og sonum hans Kevin og Christopher, fólst í að leggja fram skriflega svonefnt Witness Statement (yfirlýsingu) í tengslum við rannsóknina.

Í yfirlýsingu íslenska Fjármálaeftirlitsins er meðal annars gerð grein fyrir afgreiðslu þess á umsókn bresks fyrirtækis í eigu Tomasar Wilmot, um að fara með virkan eignarhlut í íslensku verðbréfafyrirtæki, frá árinu 2003. Í tengslum við mat á hæfi breska fyrirtækisins og Tomasar Wilmot til að fara með virkan eignarhlut hafði Fjármálaeftirlitið á Íslandi verið í sambandi við FSA.

Niðurstaðan varð sú að Fjármálaeftirlitið á Íslandi hafnaði umsókn breska fyrirtækisins um að fara með virkan eignarhlut í íslenska verðbréfafyrirtækinu. Í kjölfarið sagði Tomas Wilmot sig úr stjórn íslenska verðbréfafyrirtækisins. 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica