Fréttir


Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2019

2.4.2019

Áhætta í fjármálakerfinu hefur verið tiltölulega hófleg og heldur hefur hægt á upptakti fjármálasveiflunnar. Verð íbúðarhúsnæðis hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarið en verð atvinnuhúsnæðis hækkar enn. Nú hefur raungerst áhætta með falli WOW Air sem mun leiða til meiri samdráttar í ferðaþjónustu en reiknað var með í síðustu fyrirliggjandi spám. Ljóst er að töluvert mun hægja á hagvexti af þessum sökum og bankar verða fyrir einhverju tjóni en ólíklegt er að það eitt raski fjármálastöðugleika.

Viðnámsþróttur viðskiptabankanna er talsverður. Eiginfjárhlutföll þeirra eru nokkuð yfir kröfum Fjármálaeftirlitsins og lausafjárstaða þeirra er sterk. Þá er geta þjóðarbúsins til að takast á við áföll góð vegna ágætrar ytri stöðu, stórs gjaldeyrisforða og lágrar skuldastöðu hins opinbera og einkageirans. Svigrúm hagstjórnar til að mæta áföllum er einnig talsvert þar sem afgangur er á ríkissjóði, skuldir hins opinbera eru litlar í sögulegu samhengi og svigrúm er til lækkunar stýrivaxta, ef aðstæður krefja.

Samþykkt var að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að halda sveiflujöfnunarauka og eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki óbreyttum.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica