Fréttir


Fjármálaeftirlitið og fagfjárfestasjóðir

3.10.2019

Vegna umfjöllunar um fagfjárfestasjóði vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi á framfæri.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með fagfjárfestasjóðum á grundvelli IV. kafla laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. 

Fagfjárfestasjóðir lúta ekki eins ströngum kröfum og verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir, sem almennir fjárfestar geta fjárfest í og eftirlit Fjármálaeftirlitsins er ekki eins strangt varðandi þá. Þannig eru fagfjárfestasjóðir ekki starfsleyfisskyldir aðilar, en frá setningu laga nr. 128/2011 hefur rekstur slíkra sjóða verið tilkynningarskyldur til Fjármálaeftirlitsins, auk þess sem lágmarkskröfur hafa verið gerðar til reksturs slíkra sjóða. Þá gildir ákvæði 19. gr. laganna um góða viðskiptahætti og venjur um fagfjárfestasjóði.

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið birt drög að frumvarpi til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, sem áætlað er að taki gildi um næstu áramót. Í fyrirliggjandi drögum er ljóst að um talsvert ítarlegri kröfur til reksturs fagfjárfestasjóða er að ræða en samkvæmt núgildandi lögum.

Eftirlit með fagfjárfestasjóðum er þáttur í að hafa yfirsýn yfir fjármálamarkaðinn í heild, þá er fylgst með því hvort fjárfestar uppfylli skilyrði þess að mega fjárfesta í sjóðunum (fagfjárfestar) og kannað hvort fjárfestingar sjóðsins séu innan þeirrar fjárfestingarstefnu sem hann hefur sett sér.

Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi fagfjárfestasjóða brjóti gegn ákvæðum laganna, reglugerða eða reglna settra samkvæmt lögunum, eða starfsemi þeirra sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust, getur það veitt viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg. 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica