Fréttir


Fjármálaeftirlitið ítrekar að sjóðfélagar sem ráðstafa hluta í séreignasjóð ráða sjálfir í hvaða séreignasjóð það verður

7.7.2017

Um síðastliðin mánaðamót tóku sem kunnugt er gildi breytingar á samþykktum hjá talsverðum fjölda lífeyrissjóða þar sem þeim var heimilað að taka á móti svokallaðri tilgreindri séreign í samræmi við kjarasamning milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Vegna villandi fréttaflutnings og upplýsinga á heimasíðum lífeyrissjóða ákvað Fjármálaeftirlitið að senda lífeyrissjóðum dreifibréf þar sem ítrekað er að  þeir sjóðfélagar sem ráðstafa hluta í séreignasjóð ráði sjálfir í hvaða séreignasjóð það verður.

Í dreifibréfinu sem birt er hér fyrir neðan fer Fjármálaeftirlitið fram á að lífeyrissjóðir upplýsi sjóðfélaga sína um rétt sinn til að ráðstafa séreignarhluta iðgjalds vegna lágmarkstryggingaverndar til annars aðila. Þá fer Fjármálaeftirlitið fram á að lífeyrissjóðir yfirfari heimasíður sínar og fjarlægi villandi upplýsingar um framangreint og leiðrétti fréttaflutning sinn ef tilefni er til.

Dreifibréf Fjármálaeftirlitsins til lífeyrissjóða

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica