Fréttir


Fjármálaeftirlitið hefur metið Attestor Capital LLP og tengda aðila hæfa til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf.

15.9.2017

Hinn 14. september 2017 tilkynnti Fjármálaeftirlitið Attestor Capital LLP og tengdum aðilum að þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. sem nemur allt að 20%, þ.m.t. dótturfélögunum Stefni hf., Valitor hf., Verði tryggingum hf. og Verði líftryggingum hf., sbr. VI. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og X. kafla laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort sá sem hyggst eignast virkan eignarhlut sé hæfur til að fara með eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Matið grundvallast á viðmiðum, sem fram koma í 2. mgr. 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki, auk þess sem stofnunin hefur hliðsjón af viðmiðunarreglum evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði frá 2008 og 2016.[1]

Við mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi Attestor Capital LLP og tengdra aðila lagði stofnunin mat á hæfi írska fjárfestingafélagsins Trinity Investments DAC til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. með beinni hlutdeild. Trinity Investments DAC fer nú með um 9,99% hlut í Arion banka hf. auk þess sem félagið fer með um 4,7% hlut í Kaupþingi ehf., eða sem nemur um 2,7% óbeinum hlut í bankanum.[2]

Þá lagði Fjármálaeftirlitið mat á hæfi eftirfarandi aðila til að fara með virkan eignarhlut í bankanum með óbeinni hlutdeild:

  • Attestor Capital LLP sem stýrir fjárfestingum og eignum Trinity Investments DAC og Attestor Value Master Fund LP. Félagið stundar sérhæfða sjóðastýringu í Bretlandi samkvæmt leyfi og undir eftirliti breska fjármálaeftirlitsins, Financial Conduct Authority..
  • Attestor Services Ltd. sem er með skráð aðsetur í Bretlandi og fer með yfirráð í Attestor Capital LLP.
  • Attestor Capital Ltd. sem er með skráð aðsetur á Caymaneyjum og fer með yfirráð í Attestor Services Ltd.
  • Jan-Christoph Peters sem fer með yfirráð í Attestor Capital Ltd.
  • Attestor Value Master Fund LP sem er sjóður með skráð aðsetur á Caymaneyjum og fjármagnar Trinity Investments DAC. Sjóðfélagar hans eru að stærstum hluta bandarískir styrktar- og fjölskyldusjóðir.
  • Wilmington Trust SP Services (Dublin) Ltd. sem er írskt vörslufyrirtæki og heldur á öllu útgefnu hlutafé Trinity Investments DAC.

Mat Fjármálaeftirlitsins grundvallaðist á tilkynningu Attestor Capital LLP og tengdra aðila til að fara með allt að 20% virkan eignarhlut í Arion banka hf., fylgiskjölum hennar og öðrum upplýsingum sem stofnunin aflaði frá aðilunum. Matið byggði einnig á upplýsingum sem stofnunin aflaði frá erlendum fjármálaeftirlitum, þ.m.t. Evrópska seðlabankanum en Attestor Capital LLP og tengdir aðilar hafa verið metnir hæfir af bankanum til að fara með virkan eignarhlut í austurrískri lánastofnun.

Við matið var sérstaklega horft til þess að Arion banki hf. telst kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu fjármálastöðugleikaráðs. Með hliðsjón af því kannaði Fjármálaeftirlitið sérstaklega getu Attestor Capital LLP og tengdra aðila til að styðja fjárhagslega við bankann við sérstakar aðstæður.


[1] Sbr. Guidelines for the prudential assessment of acquisitions and increases in holdings in the financial sector required by Directive 2007/44/EC (CEBS/2008/214) og Joint Guidelines on the prudential assessment of acquisitions and increases of qualifying holdings in the financial sector (JC/GL/2016/01).
[2] Kaupþing ehf. fer með um 57,85% hlut í Arion banka hf. í gegnum eignarhaldsfélagið Kaupskil ehf. Um eignarhaldið gilda sérstök skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setti hinn 8. janúar 2010.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica