Fréttir


Fjármálaeftirlitið birtir aðferðafræði og almenn viðmið vegna framkvæmdar könnunar- og matsferlis FME

31.5.2016

Fjármálaeftirlitið hefur birt aðferðafræði sína og almenn viðmið vegna framkvæmdar könnunar- og matsferlis stofnunarinnar. Tilgangur skjalsins er að skilgreina og kynna aðferðafræði og framkvæmd könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins. Aðferðafræðin byggir á viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um könnunar- og matsferli frá desember 2014 og vinnur Fjármálaeftirlitið samkvæmt þeim viðmiðunarreglum frá ársbyrjun 2016 þegar þær tóku gildi.

Í kafla 2 er fjallað almennt um aðferðafræði könnunar- og matsferlisins, þar sem fram kemur hvernig fjármálafyrirtæki eru flokkuð eftir áhrifavægi og lýsing á vöktun lykiláhættumælikvarða, mati á einstökum áhættuþáttum, heildaráhættumati, eftirlitsaðgerðum og áhættumatseinkunnum. Þá er í kafla 3 sérstaklega fjallað um mat Fjármálaeftirlitsins á eiginfjárþörf og aðgerðir vegna ónógs eigin fjár.

Til viðbótar við þessi viðmið og almenna aðferðafræði mun Fjármálaeftirlitið birta leiðbeinandi tilmæli, eða eftir atvikum leiðbeiningar og viðmið, um mat á einstökum áhættuþáttum. Birting á aðferðafræði og viðmiðum er í samræmi við stefnu Fjármálaeftirlitsins um gagnsæi í starfsemi stofnunarinnar, en ekki er gengið lengra en nauðsynlegt er svo sem með birtingu á lykiláhættumælikvörðum, heildaráhættumatseinkunn og breytum vegna flokkunar á áhrifavægi fjármálafyrirtækja. Að mati stofnunarinnar getur slík birting aukið líkur á eftirlitshögnun og í einhverjum tilvikum unnið gegn því huglæga mati sem liggur að baki könnunar- og matsferli.

Fjármálaeftirlitið telur ástæðu til að benda á að hugtakanotkun í skjalinu styðst við gildandi lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 og stjórnvaldsfyrirmæli sett með stoðum í þeim. Hugtök verða uppfærð þegar tilefni gefst til.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica