Fréttir


Engar vísbendingar um upplýsingaleka

6.3.2017

Vegna fréttar í Morgunblaðinu í morgun, vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri er varða Borgun hf. og það verklag sem almennt er farið eftir hjá stofnuninni þegar upp koma hugsanleg refsimál.

Það er verkefni Fjármálaeftirlitsins að rannsaka mál á sínu verksviði, svo sem vegna brota á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um verðbréfaviðskipti og eftir atvikum kæra til viðeigandi yfirvalda. Raunar getur lögregla/saksóknari í mörgum tilvikum ekki hafið rannsókn á málum nema að undangenginni kæru frá Fjármálaeftirlitinu. Auk þess hefur það tíðkast að senda yfirvöldum ábendingu eða vísun, ef Fjármálaeftirlitið verður vart við hugsanlegt brot á öðrum lögum, til dæmis brot á almennum hegningarlögum eða lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Það er föst regla hjá stofnuninni að upplýsa ekki um slík mál, enda getur verið að um viðkvæma rannsóknarhagsmuni sé þar að ræða. Fjármálaeftirlitið gerir hins vegar ekki athugasemdir við það að viðtakandi slíkra mála upplýsi um hvort mál hafi borist honum. Upplýsingagjöf um efnisatriði slíkra mála, bæði gagnvart almenningi og hlutaðeigandi er jafnframt á ábyrgð viðkomandi yfirvalda.

Morgunblaðið hefur eftir stjórnarformanni Borgunar hf. að það sé undarleg stjórnsýsla, af hálfu Fjármálaeftirlitsins  að upplýsa ekki Borgun um vísun máls til Héraðssaksóknara. Fjármálaeftirlitið telur þvert á móti eðlilega stjórnsýslu að viðtakandi ábendingar eða vísunar meti hvernig eðlilegt er að upplýsa almenning og hlutaðeigandi um tilvist eða efni máls. Einnig er rétt að benda á í þessu samhengi að stjórnsýslulög gilda almennt ekki um rannsókn sakamála.

Við reglubundin verkefni stofnunarinnar eins og vettvangsathuganir og raunar öll önnur mál en þau sem hafa tengingu við refsimál/lögreglurannsóknir, er farið eftir stjórnsýslulögum og gætt að réttindum aðila eins og þau segja til um.

Fjármálaeftirlitið sér einnig ástæðu til að gera athugasemd við að í frétt Morgunblaðsins er látið að því liggja að upplýsingaleki hafi átt sér stað vegna framangreindrar vísunar. Fyrir liggur að héraðssaksóknari hefur upplýst fjölmiðla um málið og engar vísbendingar um upplýsingaleka eru fyrirliggjandi.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica