Fréttir


EIOPA gefur út umræðuskjal um mat á jafngildi Bermuda, Japans og Sviss gagnvart tilteknum ákvæðum í Solvency II

2.1.2015

Þrjár greinar Solvency II tilskipunarinnar (2009/138/EB) fjalla um svokallað jafngildi (e. equivalence) ríkja utan EES, en í því felst að löggjöf og umgjörð eftirlits í þeim ríkjum þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að teljast jafngild því sem gerðar eru kröfur um í Solvency II. Kröfurnar eru misjafnar eftir því hvers konar jafngildi er um að ræða.

172. gr. tilskipunarinnar fjallar um jafngildi vegna endurtrygginga. Endurtryggingar keyptar í ríkjum sem fá slíka viðurkenningu á jafngildi teljast í útreikningi á gjaldþolskröfu veita jafnmikla vernd og endurtryggingar keyptar í ríkjum EES. Að öðrum kosti væri óheimilt að telja þær til áhættuvarna (e. risk mitigating techniques).

227. gr. tilskipunarinnar fjallar um jafngildi vegna dóttur- eða hlutdeildarfélags í ríki utan EES. Í slíku tilviki er heimilt að nota gjaldþolsreglur viðkomandi ríkis vegna mats á hlutdeild viðkomandi dóttur- eða hlutdeildarfélags í gjaldþolsstöðu samstæðunnar.

260. gr. tilskipunarinnar fjallar um jafngildi vegna móðurfélags samstæðu í ríki utan EES. Í slíku tilviki er heimilt að nota gjaldþolsreglur viðkomandi ríkis fyrir mat á gjaldþolsstöðu samstæðu.

EIOPA (evrópska eftirlitsstofnunin á vátrygginga- og lífeyrismarkaði) hefur gefið út umræðuskjal um mat á jafngildi þriggja ríkja, Bermuda, Japans (eingöngu fyrir 172. gr.) og Sviss. Niðurstaðan er í öllum tilvikum jákvæð en með ákveðnum fyrirvörum og skilyrðum. Umsagnarfrestur er til 23. janúar 2015.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica