Ákvarðanir og gagnsæi


Niðurstöður athugunar á veð- og tryggingakerfi Landsbankans hf.

8.12.2015

Fjármálaeftirlitið hóf athugun á veð- og tryggingakerfi Landsbankans hf. í febrúar 2015. Samkvæmt 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 (fftl.) skal fjármálafyrirtæki á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína, þ.á m. útlána- og mótaðilaáhættu. Séu tryggingar og veð ekki skráð rétt í kerfin kann það að hafa áhrif á tryggingastöðu bankans. Í 19. gr. fftl. er fjallað um góða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Samkvæmt 5. gr. reglna nr. 670/2013 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja er fjallað sérstaklega um viðskiptahætti í innri starfsemi, en þar kemur m.a. fram að fjármálafyrirtæki skal búa yfir öflugu innra eftirlitskerfi og setja innri reglur og/eða viðmið um lykilþætti starfseminnar með hliðsjón af eðli og umfangi hennar. Markmið athugunar Fjármálaeftirlitsins var að staðfesta virkni og skráningar í kerfin og að kanna verklag við skráningu í þau. Við framkvæmd athugunarinnar lagði Fjármálaeftirlitið mat á innri reglur og verkferla Landsbankans hf. Valin voru fjögur félög með mismunandi tryggingaflokka úr lánasafni bankans og skoðað með ítarlegum hætti hvernig veð og tryggingar vegna þeirra voru skráð í kerfi bankans.

Niðurstöður athugunarinnar lágu fyrir í október 2015. Athugunin leiddi í ljós að verklag vegna skráninga í veð- og tryggingakerfi var ekki að öllu leyti í samræmi við innri reglur Landsbankans. Sömu starfsmenn skráðu og samþykktu upplýsingar í veð- og tryggingakerfi bankans, framkvæmd við verðmat á óskráðu bréfi gekk gegn innri reglum bankans og þá kom í ljós að þó nokkur hluti fasteigna og fjárkrafna voru óflokkaðar í kerfinu en óflokkað veðandlag getur leitt til rangrar niðurstöðu við útreikning á tryggingastöðu. Þá tók tryggingakerfi bankans ekki rétt frádrag af reiðufé og skráðum hlutabréfum sem lögð voru fram sem tryggingar. Einnig gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við að úreltar handbækur um veð- og tryggingakerfi voru enn í notkun en nauðsynlegt er að bankinn fylgi endurbótum á kerfinu eftir í handbókum. Í einu tilfelli úrtaksins voru aðeins þrjú af fjórum tryggingabréfum til útreiknings tryggingastöðu í veð- og tryggingakerfi bankans. Þá gerði Fjármálaeftirlitið athugasemd við að hjá sama félagi var nýting trygginga vegna veðandlags í veð- og tryggingakerfi bankans hærri en rauntryggingin sjálf. Að lokum gerði eftirlitið athugasemd við að misræmi væri á því gjaldmiðlagengi sem veð- og tryggingakerfi sótti og því sem birtist á ytri vef bankans, þar sem slíkur mismunur kann að hafa áhrif á tryggingastöðu bankans.

Með vísan til framangreinds fór Fjármálaeftirlitið fram á að Landsbankinn hf. gerði viðeigandi úrbætur í kjölfar athugunarinnar.
LÍ - Gagnsæistilkynning

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica