Ákvarðanir og gagnsæi


Niðurstaða athugunar á upplýsingagjöf Lýsingar hf. gagnvart viðskiptamönnum

16.6.2015

Hinn 5. mars sl. kvað Hæstiréttur upp dóma í málum nr. 625/2014 og 626/2014 sem vörðuðu skilyrði fyrir beitingu undantekningarreglu um svokallaða fullnaðarkvittun vegna tiltekinna gengislána hjá Lýsingu hf. Í kjölfarið birti Lýsing hf. á heimasíðu sinni upplýsingar um þau úrræði sem viðskiptamönnum stæðu til boða ef þeir teldu sig eiga endurkröfu á hendur félaginu. Var viðskiptamönnum þar gert kleift að senda félaginu tilkynningu um að fallið væri frá fyrri endurreikningi og óskað eftir nýjum endurreikningi á grundvelli undantekningarreglunnar um fullnaðarkvittun sem fyrrnefndir dómar Hæstaréttar byggðu á.

Í sama mánuði hóf Fjármálaeftirlitið athugun á því hvort viðskiptamenn Lýsingar hf. væru nægjanlega upplýstir um hugsanlegan rétt sinn gagnvart félaginu og að hagsmunir þeirra væru tryggðir, enda lá fyrir að í einhverjum tilvikum kynni endurreikningur í samræmi við áðurnefnd dómafordæmi að leiða til lakari niðurstöðu fyrir viðskiptamenn. Markmið athugunarinnar var að kanna hvort fyrrnefnd upplýsingagjöf Lýsingar hf. væri í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og reglur nr. 670/2013 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.

Það er mat Fjármálaeftirlitsins að upplýsingagjöf Lýsingar hf. gagnvart viðskiptamönnum um mögulegar endurkröfur á hendur félaginu samræmist framangreindum lögum og reglum enda lá fyrir að Lýsing hf. myndi gefa viðskiptamönnum sem gerðu kröfu um endurreikning af þessu tilefni tækifæri til þess að draga kröfu sína til baka ef endurreikningur leiddi til lakari niðurstöðu fyrir viðkomandi viðskiptamann. Lauk athuguninni því án athugasemda.

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að ef viðskiptamenn Lýsingar hf. telja sig eiga endurkröfu á hendur félaginu og vilja bera fyrir sig undantekningarreglu vegna fullnaðarkvittana geta þeir gert það á þjónustusíðum félagsins.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica