Ákvarðanir og gagnsæi


Niðurstaða athugunar á umfangi veittra ívilnana hjá Landsbankanum hf.

9.12.2015

Fjármálaeftirlitið hóf athugun á fyrri hluta árs 2015 á umfangi veittra ívilnana hjá Landsbankanum hf. Markmið athugunarinnar var að leggja mat á umfang ívilnana og hvort skráning, eftirlit og skýrslugjöf bankans til Fjármálaeftirlitsins vegna þeirra væri fullnægjandi. Niðurstöður athugunarinnar lágu fyrir í nóvember 2015.

Úrræði banka til að koma lántaka úr vanskilum, s.s. eins og með endurfjármögnun, breyttu greiðsluflæði, með því að samþykkja frestun á greiðslum eða veitingu skammtímafyrirgreiðslna sem ráðstafað er til greiðslu afborgana lána sem eru í vanskilum, geta falið í sér ívilnun fyrir lántaka ef þau einungis leysa greiðsluvanda hans til mjög skamms tíma. Lán sem hlotið hafa ívilnun eru talin áhættusamari en þau lán þar sem staðið er við upphaflega lánsskilmála. Lánastofnunum ber að taka tillit til ívilnana við mat á áhættu útlána sinna og upplýsa Fjármálaeftirlitið um flokkun þeirra í sérstakri lánasafnsskýrslu.

Athugun Fjármálaeftirlitsins náði til 15 lántaka sem Landsbankinn hf. tilgreindi í lánasafnsskýrslu sinni hinn 31. desember 2014 og flokkaði annars vegar í skilum án endurskipulagningar eða í skilum eftir endurskipulagningu. Samanlagt nam bókfært virði lána þeirra um 6% af bókfærðu virði lána Landsbankans hf. til fyrirtækja.

Í tengslum við athugunina afhenti Landsbankinn hf. Fjármálaeftirlitinu m.a. afrit af lánssamningum og umfjöllun lánanefnda um einstakar fyrirgreiðslur. Í athuguninni studdist Fjármálaeftirlitið við leiðbeiningar og skilgreiningar lánasafnsskýrslu Fjármálaeftirlitsins á ívilnunum og vanefndum ásamt skilgreiningum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (e. European Banking Authority) sem tilgreindar eru í drögum að tæknistaðli og ætlað er að samræma vinnubrögð eftirlitsaðila.

Helstu niðurstöður athugunarinnar
Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að úrræði Landsbankans hf. gagnvart níu lántökum, af þeim fimmtán sem voru í úrtakinu, hefðu falið í sér ívilnanir fyrir lántakana.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að skráning bankans vegna lána sem hlotið hafa frystingu greiðslna, en slíkar ívilnanir teljast til vanefnda samkvæmt skilgreiningu lánasafnsskýrslunnar, væri ábótavant sem leiddi til þess að lán sjö þeirra níu lántaka sem hlutu ívilnanir voru ekki flokkuð í vanefndahluta lánasafnsskýrslunnar. Fjármálaeftirlitið fór fram á að Landsbankinn hf. yfirfæri hvernig staðið væri að skráningu ívilnana af þessum toga í kerfum bankans þannig að tryggð væri rétt skráning í lánasafnsskýrslu.

Nidurstada-athugunar-a-umfangi-veittra-ivilnana-LI1pdf  

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica