Eftirlit og upplýsingaþjónusta
Hollráð við val á rafrænni bankaþjónustu
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vekur athygli neytenda á upplýsingaskjali frá Evrópska bankaeftirlitinu (EBA) í íslenskri þýðingu. Þar er að finna nokkur hollráð sem neytendur ættu að hafa í huga við val á bankaþjónustu á netinu eða í smáforritum.
Eftirlit með viðskiptaháttum gagnvart neytendum fjármálaþjónustu
Fjármálaeftirlitið fylgist með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti og venjur á viðkomandi markaði. Þannig stuðlar fjármálaeftirlitið heildstætt að því að hagsmunir viðskiptavina eftirlitsskyldra aðila séu tryggðir ásamt því að varðveita fjármálastöðugleika og trúverðugleika fjármálamarkaðarins.
Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.
Upplýsinga- og leiðbeiningarþjónusta fyrir neytendur fjármálaþjónustu
Fjármálaeftirlitið leiðbeinir viðskiptavinum eftirlitsskyldra aðila í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga. Í því felst að leitast er við að leiðbeina aðilum um þau úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum, m.a. hvaða aðilar fari með úrskurðarvald í þeirra málum og aðrar almennar leiðbeiningar. Utan leiðbeiningarskyldu Fjármálaeftirlitsins fellur sérfræðileg eða lagaleg ráðgjöf, m.a. um túlkun lagaákvæða og heimildir eftirlitsskyldra aðila í einstökum tilvikum.
Neytendur fjármálaþjónustu geta sent fjármálaeftirlitinu rafræna fyrirspurn hér.
Ef neytendur fjármálaþjónustu eru í vafa um hvert þeir geti leitað með ágreining þrátt fyrir lestur upplýsinga á heimasíðu fjármálaeftirlitsins er best að senda tölvupóst á sedlabanki@sedlabanki.is og óska eftir leiðbeiningum.
Heppilegast og skjótvirkast er að senda fyrirspurnir og ábendingar rafrænt, sbr. áðurgreint, en neytendur geta óskað eftir að koma slíku á framfæri við lögfræðing hjá eftirlitinu símleiðis. Símtalsbeiðnum verður svarað eins fljótt og unnt er.
Ábendingar til fjármálaeftirlitsins
Ein af leiðum fjármálaeftirlitsins til að sinna framangreindu eftirlitshlutverki sínu með viðskiptaháttum gagnvart neytendum fjármálaþjónustu er að taka við ábendingum um starfshætti eftirlitsskyldra aðila. Ábendingar um starfshætti eftirlitsskyldra aðila veita fjármálaeftirlitinu mikilvægar upplýsingar og er þær því allar vel þegnar.
Rafrænum ábendingum er hægt að koma á framfæri hér .
Allar ábendingar sem berast fjármálaeftirlitinu eru metnar og skoðað hvort tilefni sé til frekari athugunar. Telji eftirlitið ástæðu til að taka mál til athugunar er það gert á grundvelli almenns eftirlits, þ.e. hvort starfsemi viðkomandi eftirlitsskylds aðila sé í samræmi við lög, reglur og eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.
Ákvörðun um hvort ábending leiði til frekari athugunar er ávallt í hendi fjármálaeftirlitsins. Þeir sem beina ábendingum til eftirlitsins eiga ekki rétt á því að ábendingar þeirra verði teknar til meðferðar. Þar sem fjármálaeftirlitið er bundið ríkri þagnarskyldu um samskipti sín við eftirlitsskylda aðila eiga þeir heldur ekki rétt á upplýsingum um hvort að eftirlitið hafi eða muni taka ábendingar til frekari skoðunar. Upplýsingar um einstök mál eru aðeins veittar í samræmi við ákvæði laga um gagnsæi í störfum fjármálaeftirlitsins og gagnsæisstefnu þess.
Hér má nálgast Verklagsreglur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurna og ábendinga.