Upplýsingar til aðila á verðbréfamarkaði vegna EMIR

Talsverð óvissa er uppi um fyrirkomulag útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB). Ekki er því hægt að útiloka útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. Af þessum sökum hafa íslensk stjórnvöld sett upp sérstaka upplýsingasíðu. Allir þeir sem eiga í viðskiptum eða öðrum samskiptum við Bretland eru hvattir til að kynna sér efni síðunnar.

Frá og með þeim degi sem Bretland gengur úr ESB án samnings verður landið að óbreyttu skilgreint sem þriðja ríki, þ.e. ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) á grundvelli Evrópulöggjafar á fjármálamarkaði í samskiptum við Ísland og önnur ríki innan EES. Áhrif þess á bresk og íslensk fjármálafyrirtæki munu, eðli málsins samkvæmt, fara eftir starfsemi fyrirtækja í hverju tilviki fyrir sig.

Á upplýsingasíðu stjórnvalda vegna útgöngu Bretlands án samnings  er sérstaklega fjallað um fjármálaþjónustu og þau áhrif sem búist er við að útganga án samnings hafi á hana. Til viðbótar við þær upplýsingar sem þar koma fram vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri við aðila á verðbréfamarkaði:

Áhrif vegna EMIR

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á hugsanlegum áhrifum vegna reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins(ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár(EMIR). Reglugerðin tók gildi með lögum nr. 15/2018 um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár .

Líkt og fram hefur komið er sá möguleiki fyrir hendi að Bretland verði skilgreint sem þriðja ríki, (ríki utan EES) á grundvelli Evrópulöggjafar á fjármálamarkaði, frá og með 1. nóvember nk. Við það gæti myndast lagaleg óvissa um þá OTC-afleiðusamninga sem EES ríki hafa gert við breska mótaðila. Til þess að bregðast við þessari óvissu hefur Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) samþykkt að gera samstarfssamning (e. Memorandum of Understanding) við bresk stjórnvöld sem felur í sér að breskir miðlægir mótaðilar (e. Central Counterparties - CCP) verði viðurkenndir af ESMA með jafngildisákvörðun. Markmiðið með þessari aðgerð er að takmarka áhættu vegna útgöngunnar á miðlæga stöðustofnun og lágmarka neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika innan sambandsins. Sú jafngildisviðurkenning mun taka gildi ef Bretland fer úr Evrópusambandinu án sérstaks samnings og gilda til 30. mars 2021.

Jafnframt mun ESMA tímabundið heimila flutning (e. novation) á eldri OTC-afleiðusamningum, sem féllu utan stöðustofnunarskyldunnar þegar reglugerðin tók gildi en væru stöðustofnunarskyldir væri stofnað til þeirra í dag, frá breskum mótaðilum til evrópskra mótaðila, án þess að virkja stöðustofnunarskylduna eða gera auknar kröfur um tryggingar.

Varðandi þær lagaskyldur sem fylgja EMIR um skýrsluskil munu breskir mótaðilar, að óbreyttu, hætta að tilkynna afleiðuviðskipti sín til afleiðuviðskiptaskrár eftir 31. október og að sama skapi munu þeir einnig hætta að tilkynna um breytingar á opnum samningum, líkt og EMIR gerir kröfu um. Mótaðilar innan EES, og þar með taldir íslenskir mótaðilar, þurfa því að láta afleiðuviðskiptaskrár merkja þá afleiðusamninga sem þeir hafa gert við breska mótaðila. Eftir útgöngu Bretlands úr ESB munu mótaðilar innan EES halda áfram að skila skýrslum um afleiðuviðskipti til afleiðuviðskiptaskrár líkt og 9. gr. EMIR kveður á um, með þeirri undantekningu að skýrslur vegna samninga þar sem mótaðilinn er breskur verða ekki afstemmdar hjá afleiðuviðskiptaskrám, þar sem ekki er búist við gagnkvæmum skilum frá Bretlandi.

Vakni spurningar um ofangreint er markaðsaðilum bent á netfangið: Emir-Verdbrefaeftirlit@sedlabanki.is.

Frekari upplýsingar um útgöngu Bretlands úr ESB frá ESMA:

Press Release: ESMA agrees no-deal Brexit MOUs with the Bank of England for recognition of UK CCPs and the UK CSD

Public Statement: ESMA is ready to review UK CCPs' and CSDs' recognition applications for a no-deal Brexit scenario

Public Statement: On issues affecting reporting, recordkeeping, reconciliation, data access, portability and aggregation of derivatives under Article 9 EMIR in the case of UK withdrawal from the EU without a transitional agreement

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica