XBRL

CRD IV og Solvency II

Þeim gögnum sem skilað er á XBRL formi tilheyra annars vegar CRD IV löggjöfinni og Solvency II tilskipuninni. Frekari upplýsingar um skiladagsetningar fyrir gögn sem heyra undir CRD IV er að finna á þessari síðu og skiladagsetningar fyrir Solvency II gögn eru á þessari síðu.

Tegundaraðir (e. Taxonomies) - upplýsingar um útgáfunúmer

Heimildir 

Efni frá EBA

Á þessari síðu er hægt að nálgast tegundaraðir gefnar út af EBA

 

Efni frá EIOPA

Á þessari síðu er hægt að nálgast tegundaraðir gefnar út af EIOPA.

Efni frá FME

Glærur frá fundi sem haldinn var 18. mars 2014 og fjallaði um XBRL og DPM.  Hér má nálgast glærur sem notaðar voru á fundinum.

Aðrar heimildir um XBRL

Skilgreiningar

XBRL

XBRL (eXtensible Business Reporting Language) er staðall sem er notaður í rafrænum gagnaskilum og var þróaður sérstaklega fyrir sendingar með viðskiptaleg gögn. Staðallinn auðveldar sendingar á gögnum vél í vél og tryggir ákveðin gæði gagna með vel skilgreindum gagnasvæðum og gagnareglum (líka kallaðar formúlur). Staðallinn byggir á XML og notar merki (e. tag) við framsetningu gagna. Þessi merki innihalda nánari upplýsingar um þau gögn sem verið er að skila á  XBRL formi, þ.e.a.s. þetta eru gögn um gögn eða lýsigögn (e. metadata). En flækjustigið er töluvert meira í XBRL þar sem um er að ræða gögn sem eru skilgreind út frá á flóknum viðskiptalegum hugtökum sem oftar en ekki eru brotin niður í minni einingar. Sem dæmi má benda á að í COREP tegundaröðun eru öll hugtök skilgreind út frá víddum (e. dimension), lénum (e. domain) og meðlimum léns (e. domain members) sem settir eru fram í stigveldi. Áhugasömum um samanburð á XML og XBRL er bent á þessa síðu.  

Öll merki í XBRL gögnum eru skilgreind í tegundaröðun (sjá skilgreiningu hér að neðan) ásamt frekari upplýsingum um þau, framsetningu, tegund og tengsla þeirra á milli. Það er þess vegna ómögulegt fyrir tölvu með XBRL hugbúnað að skilja XBRL gögn án tegundaraðar. Að sama skapi er ómögulegt að búa til eða sannprófa XBRL gögn án tegundaraðar. Í einu XBRL tilviki (e. instance) eða skjali er vísað í þá tegundaröðun sem tilvikið byggir á en auk þess koma fram upplýsingar um framteljanda, tímabil, gjaldmiðil eða einingar sem gildin byggja á, ásamt gildunum sjálfum.

Það eru til ýmsar heimildir um XBRL á netinu (t.d. 1, 2). Þá má benda á að töluvert af nýlegum heimildum fylgir útgáfum af tegundaröðun og DPM bæði frá EBA og EIOPA.

XBRL tegundaröðun (e. taxonomy) 

Tegundaröðun saman með tilviki myndar grunnstoðir XBRL staðalsins. Tegundaröðun samanstendur af skemum og tenglagrunnum (e. linkbases) sem skilgreina öll merki notuð í XBRL tilviki. Í tegundaröðun er að finna rafrænar skilgreiningar og flokkun á viðskiptalegum hugtökum ásamt flóknu og stærðfræðilegu sambandi þeirra. Í skemanu eru hugtökin sett fram og í tenglagrunnum mismunandi sambönd þeirra á milli. Tenglagrunnar eru fimm talsins (taldir upp hér að neðan í sviga) en auk þeirra eru tveir aðrir XBRL staðlar notaðar til frekari skilgreiningar á hugtakatengslum en það eru  Formula 1.0 og  Dimension 1.0. 

Eins og áður sagði eru tenglagrunnar notaðir til að lýsa flóknu og stærðfræðilegu sambandi milli hugtaka sem sett eru fram í skema. Stærðfræðilegt samband birtist m.a. í uppbyggingu stigvelda ( Presentation linkbase), útreikningum ( Calculation linkbase og Formula 1.0) og sundurliðun ( Definition linkbase og Dimension 1.0). Þar fyrir utan er hægt að tengja við hugtökin ýmis konar tilvísanir ( Reference linkbase) ásamt textamiða á mismunandi tungumálum ( Label linkbase).

Til eru ýmsar opinberar tegundaraðir eins og COREP, FINREP og Solvency II hér í Evrópu en oftar en ekki eru tegundaraðir búnar til af opinberum eftirlitsstofnunum sem skilgreina öll gögn sem senda á inn til eftirlits

DPM

DPM (e. data point model) er gagnalíkan sem liggur til grundvallar við gerð tegundaraðar. Í rauninni má líta svo á að nær ómögulegt er að hanna tegundaröðun ef ekki hefur verið lagt í gerð DPM. Að sama skapi þarf að vinna ákveðna forvinnu áður en vinna við gerð DPM hefst. Sú forvinna felst í að greina grunngögn á borð við lög, reglugerðir, tilskipanir og skýrslur til að greina þau hugtök og sambönd þeirra á milli sem tegundaröðun á að lýsa. Það þarf að koma auga á hvernig viðskiptaleg gögn eru skipulögð og nákvæma framsetningu þeirra. Þessa forvinnu vinna viðskiptasérfræðingar en það er svo við gerð DPM sem XBRL sérfræðingar setjast við hlið þeirra og vinna saman að gerð þess.

DPM byggir á gagnanálgun (e. data centric) en ekki skýrslunálgun (e. form centric). M.ö.o. gögnin í DPM eru skilgreind þannig að þau geta staðið ein og sér óháð framsetningu eða einhverju Excel skjali. Í DPM er lögð áhersla á lýsigögn sniðmáta (e. templates metadata), víddarhugtök sem notuð eru til að flokka gögn og tengingu þeirra á milli, sem er hin eiginlega flokkun.

DPM er oft sett fram sem orðalisti eða orðabók sem inniheldur öll hugtök og niðurbrot þeirra ásamt sniðmátum. Sniðmátin eru merkt með öllum þeim hugtökum og niðurbrotum þeirra sem tilheyra sniðmátinu. Þessi hugtök og sundurliðun eru notuð til skilgreiningar á einu hólfi (e. cell) í Excel skjali. Hólfið er í raun einn gagnapunktur sem samanstendur af mælieiningu (e. metric) og sundurliðun á henni sem varpar frekari ljósi á mælieininguna. Mælieiningin samanstendur af gagnategund (e. data type) og tíma en sundurliðunin af víddum, lénum og meðlimum léns. EBA hefur hins vegar líka sett DPM fram sem gagnagrunn þannig að auðvelt er að senda fyrirspurnir til að skilja hvernig hugtökin og tengsl þeirra á milli eru sett fram.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica