Leiðbeiningar varðandi hliðarstarfsemi og tímabundna starfsemi lánastofnana

Almennt

Kveðið er á um starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja í 20. – 23. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki (fftl.)[1]. Í 1. mgr. 20. gr. fftl. er talið upp til hvaða þátta starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða getur tekið. Í 3. mgr. 20. gr. fftl. er tekið fram að starfsemi lánafyrirtækja geti tekið til sömu þátta að því undanskildu að þeim er óheimilt að taka á móti innlánum. Til viðbótar við það sem upp er talið í 20. gr. fftl. er lánastofnunum heimilt að sinna annarri þjónustustarfsemi skv. 1. mgr. 21. gr. fftl., hliðarstarfsemi skv. 2. mgr. 21. gr. fftl. og tímabundinni starfsemi skv. 1. mgr. 22. gr. fftl. Að auki er lánastofnunum heimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu, sbr. 2. mgr. 22. gr. fftl.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um fjármálafyrirtæki eru skýringar á ofangreindum ákvæðum, auk þess sem þau byggja að mörgu leyti á eldri lögum. Ákvæðin og skýringar með þeim skýra hins vegar ekki með tæmandi hætti hvaða starfsemi fellur undir framangreind ákvæði og bera með sér að skoða þurfi í hverju tilviki þá starfsemi sem lánastofnanir stunda eða taka þátt í.

Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu, fyrir fram ef við á, um allar breytingar á áður veittum upplýsingum, sbr. 8. gr. fftl.

1.       Starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja skv. 20. gr. fftl.

Starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða getur tekið til eftirfarandi þátta:

1. Móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi.

2. Útlánastarfsemi, m.a.:

a. neytendalána,

b. langtímaveðlána,

c. kröfukaupa og kaupa skuldaskjala og

d. viðskiptalána.

3. Fjármögnunarleigu.

4. Greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.

5. Útgáfu og umsýslu greiðsluskjala, svo sem ferðatékka og víxla.

6. Að veita ábyrgðir og tryggingar.

 7. Viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:

a. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),

b. erlendan gjaldeyri,

c. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),

d. gengisbundin bréf og vaxtabréf og

e. verðbréf.

8. Þátttöku í útboðum verðbréfa, þjónustuviðskipta sem tengjast slíkum útboðum og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

9. Ráðgjafar til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjafar og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.

10. Peningamiðlunar.

11. Stjórnunar og ráðgjafar varðandi samval verðbréfa.

12. Vörslu og ávöxtunar verðbréfa.

13. Upplýsinga um lánstraust (lánshæfi).

14. Útleigu geymsluhólfa.

Sjá nánari umfjöllun um viðskipti fyrir eigin reikning skv. 7. tl. 20. gr., í kafla 3 hér að neðan.

2.       Önnur þjónustustarfsemi, hliðarstarfsemi, tímabundin starfsemi og yfirtaka eigna, sbr. 21. og 22. gr. fftl.

Áður en lánastofnun hefur starfsemi sem ekki fellur undir hefðbundnar starfsheimildir skv. 20. gr. fftl. verður að taka afstöðu til þess hvort um sé að ræða aðra þjónustustarfsemi, hliðarstarfsemi,  tímabundna starfsemi eða yfirtöku fullnustueigna.

Fjármálaeftirlitið horfir fyrst og fremst til eðlis starfseminnar við mat á því hvort um sé að ræða aðra þjónustustarfsemi, hliðarstarfsemi eða tímabundna starfsemi.

Starfsemi lánastofnunar getur verið stunduð innan viðkomandi lánastofnunar, í sér félagi eða með þátttöku í annarri atvinnustarfsemi.

Ef um veigalítinn eignarhlut í félagi er að ræða, undir 10%, hefur Fjármálaeftirlitið litið svo á að slíkt teljist sem viðskipti fyrir eigin reikning, sbr. 7. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl. Fjármálaeftirlitið getur heimilað lánastofnun að flokka eignarhluti undir 20% sem viðskipti fyrir eigin reikning skv. 7. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl. Sjá nánari umfjöllun um viðskipti fyrir eigin reikning í kafla 3.

Ef eignarhlutur lánastofnunar er 20% eða stærri telst félagið hlutdeildarfélag. Í slíkum tilvikum þarf ávallt að flokka eignarhlutinn sem hliðarstarfsemi eða tímabundna starfsemi. Sjá einnig umfjöllun í kafla 2.4 um yfirtöku fullnustueigna.

Við mat á því hvort um þátttöku í annarri atvinnustarfsemi sé að ræða er m.a. litið til setu í stjórn félags, hluthafasamkomulags eða annarra áhrifa sem kunna að gera lánastofnun að þátttakanda í rekstri félags. Þá kann að vera tekið til skoðunar umfang eða skilyrði lánveitinga til félaga, ef líkja má umfangi eða aðstæðum þannig saman að jafnað verði til þátttöku í atvinnustarfsemi.

Fjármálaeftirlitið bendir á að allir eignarhlutir lánastofnunar í fyrirtækjum, hvort sem þeir eru skráðir í fjárfestingabók, veltubók eða hjá dótturfélögum, koma til skoðunar þegar metið er hvort starfsemin falli undir hliðarstarfsemi, tímabundna starfsemi eða viðskipti fyrir eigin reikning.

Mikilvægt er að lánastofnun geri sér grein fyrir því undir hvaða lagaákvæði tiltekin starfsemi fellur. Í því sambandi ber að líta til þess hvort starfsemi teljist í eðlilegum tengslum við starfsheimildir lánastofnunarinnar, sé í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins eða hvort um óskylda starfsemi sé að ræða.

Tilkynna þarf um starfsemi bæði hérlendis og erlendis. Vakin er athygli á því að þátttaka í starfsemi sjóða getur einnig fallið undir ofangreind ákvæði.

2.1. Önnur þjónustustarfsemi skv. 1. mgr. 21. gr. fftl.

Önnur þjónustustarfsemi verður að vera í eðlilegum tengslum við starfsheimildir lánastofnunar skv. 20. gr. fftl. Þessu ákvæði er ætlað að tryggja að starfsemi lánastofnunar geti þróast með eðlilegum hætti. Ekki er gerlegt að telja upp alla þá starfsemi sem mögulega getur fallið undir ákvæðið en þjónusta sem er óhjákvæmilegur hluti af starfsemi lánastofnunar myndi almennt falla hér undir. Ekki þarf að tilkynna aðra þjónustustarfsemi til Fjármálaeftirlitsins en leiki vafi á hvort starfsemi fellur undir ákvæðið skal senda erindi þess efnis til stofnunarinnar.

2.2. Hliðarstarfsemi skv. 2. mgr. 21. gr. fftl.

Lánastofnun er heimilt að stunda hliðarstarfsemi, enda sé hún í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins skv. 2. mgr. 21. gr. fftl. Lagaákvæðið tekur einnig til þess þegar fjármálafyrirtæki á eignarhlut í eða er þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi. Senda skal tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins ef fyrirhugað er að stunda starfsemi samkvæmt þessari málsgrein. Eyðublað vegna tilkynningar um hliðarstarfsemi má finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Hliðarstarfsemi verður ávallt að vera í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu viðkomandi lánastofnunar. Ákvæðið tekur fyrst og fremst til starfsemi sem ekki telst fjármálaþjónusta en verður engu að síður að vera samþýðanleg þjónustu lánastofnunar.

Sem dæmi um hliðarstarfsemi má nefna félög í eigu lánastofnunar sem halda utanum fasteignir sem hýsa rekstur viðkomandi lánastofnunar, félög sem halda utanum fullnustueignir (þó ekki eignarhluti í félögum/sjóðum) viðkomandi lánastofnunar, eignarhluti í öðrum eftirlitsskyldum aðilum og eignarhluti í félögum sem veita nauðsynlega stoðþjónustu.

Ef félag sem telst vera í hliðarstarfsemi á eignarhluti í öðrum félögum ber að tilkynna um alla eignarhluti viðkomandi félags til Fjármálaeftirlitsins á grundvelli 21. gr. eða 22. gr. fftl. Framangreint tryggir gagnsæi að því er varðar óbeint eignarhald lánastofnunar.

2.3. Tímabundin starfsemi skv. 1. mgr. 22. gr. fftl.

Í 1. mgr. 22. gr. fftl. er kveðið á um heimild lánastofnunar til að stunda aðra starfsemi en þá sem að framan greinir. Undir 1. mgr. 22. gr. fftl. falla eignarhlutir í fyrirtækjum og þátttaka í annarri atvinnustarfsemi í óskyldum rekstri. Eins og áður hefur komið fram er við mat á þátttöku í annarri atvinnustarfsemi m.a. litið til setu í stjórn félags, hluthafasamkomulags eða annarra áhrifa sem veita rétt til þátttöku í rekstri félags, þegar metin er þátttaka í annarri atvinnustarfsemi. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu um tímabundna starfsemi. Eyðublað vegna tilkynningar um tímabundna starfsemi má finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Starfsemi skv. ákvæðinu skal vera tímabundin og í þeim tilgangi að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila og/eða ljúka viðskiptum. Með endurskipulagningu er bæði átt við umbreytingarfjárfestingu/fjárfestingabankastarfsemi, sem felst í því að kaupa hluti í fyrirtækjum í því skyni að sameina annarri starfsemi, skrá viðkomandi félag og selja almenningi og fjárhagslega endurskipulagningu. Heimildin til að ljúka starfsemi nær til yfirtöku á félagi í rekstrarerfiðleikum. Lánastofnun er heimilt að eiga eignarhlut í félögum í óskyldum rekstri í allt að 12 mánuði en í undantekningartilvikum getur Fjármálaeftirlitið veitt frekari tímafrest ef þörf þykir. Umsóknareyðublað um aukinn frest má finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Við mat á umsóknum um aukinn tímafrest er Fjármálaeftirlitinu heimilt að fela óháðum matsmönnum að meta söluferli félags í tímabundinni starfsemi, m.a. ásett verð á umræddum eignarhlut.

Fjármálaeftirlitið áréttar að við endurskipulagningu fyrirtækja er óheimilt að haga samningsgerð á þann hátt að ekki sé mögulegt að uppfylla lögbundinn tímafrest skv. 1. mgr. 22. gr. fftl.

2.4. Yfirtaka fullnustueigna skv. 2. mgr. 22. gr. fftl.

Undir ákvæði 2. mgr. 22. gr. fftl. falla eignir viðskiptavina sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum. Ákvæðið veitir lánastofnun heimild til að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Ekki þarf að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um yfirtöku á fullnustueignum, nema ef um er að ræða fullnustu á eignarhlutum í fyrirtækjum. Þrátt fyrir að hlutafé í félögum teljist til lausafjár er gerð sú krafa að lánastofnun meti þá starfsemi sem fram fer í félaginu og tilkynni Fjármálaeftirlitinu um hliðarstarfsemi eða tímabundna starfsemi.

3.   Viðskipti fyrir eigin reikning, sbr. 7. tl. 20. gr. fftl.

Eftirfarandi sjónarmið liggja að baki mati Fjármálaeftirlitsins á því hvenær lánastofnun telst starfa innan heimilda um viðskipti fyrir eigin reikning:

Eignarhlutur undir 10% í félagi telst veigalítil hlutdeild í starfsemi fyrirtækis og getur því fallið undir viðskipti fyrir eigin reikning skv. 7. tl. 20. gr. fftl., að því gefnu að ekki sé um stjórnarsetu að ræða fyrir hönd lánastofnunar í stjórn umrædds félags eða annað sem jafna má til þátttöku í atvinnustarfsemi.

Fjármálaeftirlitið getur heimilað lánastofnun að flokka eignarhluti undir 20% sem viðskipti fyrir eigin reikning skv. 7. tl. 1. mgr. 20. gr. fftl., ef lánastofnunin hefur ekki fulltrúa í stjórn félagsins, ekki er til staðar hluthafasamkomulag sem veitir aukinn atkvæðisrétt eða annað sem getur haft áhrif á stjórnun félagsins og jafna má til þátttöku í atvinnustarfsemi.

Ef eignarhlutur lánastofnunar er 20% eða stærri telst félagið hlutdeildarfélag. Í slíkum tilvikum þarf ávallt að flokka eignarhlutinn sem hliðarstarfsemi eða tímabundna starfsemi.

Umsókn um heimild til að flokka eignarhlut í fyrirtæki sem viðskipti fyrir eigin reikning má finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

 4.   Verkferlar, eftirlit og upplýsingagjöf

Lánastofnun ber að sjá til þess að fyrir hendi séu verkferlar og fullnægjandi innra eftirlit til þess að tryggja framkvæmd gildandi lagaákvæða um starfsemi lánastofnunar. Í þessu sambandi verða stjórnendur lánastofnunar á hverjum tíma að hafa yfirsýn yfir starfsemi viðkomandi fyrirtækis og undir hvaða lagaákvæði tilteknir þættir starfseminnar falla.

Lánastofnun skal hálfsárslega senda Fjármálaeftirlitinu yfirlit yfir starfsemi undangengis tímabils skv.  7. tl. 1. mgr. 20. gr., 2. mgr. 21. gr. og 22. gr. fftl. Skýrsluskil skulu miða við 31. desember og 30. júní ár hvert og skilað í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlitsins varðandi skýrsluskil. Fjármálaeftirlitið leggur til að yfirlitið sé kynnt fyrir stjórn lánastofnunar. Yfirliti þessu er ætlað að treysta innra eftirlit með þessari starfsemi og um leið styrkja eftirlit Fjármáleftirlitsins.

5.   Viðurlög og þvingunarúrræði

Brot gegn ákvæðum 2. mgr. 21. gr. og 22. gr. fftl. varða stjórnvaldssektum skv. 8. og 9. tl. 1. mgr. 110. gr. fftl. Brot gegn ákvæðunum varða jafnframt sektum eða fangelsi allt að tveimur árum liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum skv. 4. og 5. tl. 1. mgr. 112. gr. b fftl

Auk þeirra viðurlaga sem fram koma hér að framan hefur Fjármálaeftirlitið heimildir til að leggja á févíti og dagsektir sbr. 11. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.


[1] Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr. fftl. telst vera lánastofnun í skilningi laganna.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica