Eftirlitsstarfsemi

Eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Hvað er peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka?

Peningaþvætti er skilgreint í 12. tölul. 3. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, með síðari breytingum. Samkvæmt ákvæðinu telst það til peningaþvættis þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings með broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 eða öðrum lögum. Hér er einnig átt við það þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum. Ávinningur er hvers kyns hagnaður og eignir hverju nafni sem þær nefnast, þ.m.t. skjöl sem ætlað er að tryggja rétthafa aðgang að eignum eða öðrum réttindum sem meta má til fjár, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga nr. 140/2018.

Þvætti er sjálfstætt refsivert brot samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. skal hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á almennum hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings sæta fangelsi allt að 6 árum. Í 3. tölul. 4. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að refsa skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot gegn 264. gr. framið innan íslenska ríkisins enda þótt frumbrotið sem ávinningur stafi frá hafi verið framið erlendis og án tillits til hver var að því valdur.

Peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknara hefur birt á heimasíðu sinni samantekt um frumbrot í tengslum við peningaþvætti. Í samantektinni er  m.a. bent á að öll refsiverð brot samkvæmt íslenskum lögum geta verið frumbrot  t.d. fjársvik, fjárdráttur, fíkniefnabrot, skattalagabrot og spillingarbrot, þar á meðal erlend og innlend mútubrot. Frumbrotið felur í sér að fremja brot sem leitt getur af sér ólöglegan ávinning eða annan ágóða sem reynt er að þvætta. Peningaþvætti er í raun leið til að njóta ávaxtanna af glæpum hvort sem ágóðinn fer til einkaneyslu, er færður yfir í löglega starfsemi eða nýttur til frekari brota. Heimasíða peningaþvættisskrifstofunnar er http://www.hersak.is/verkefnin/peningathvaettisskrifstofa og fyrrnefnda samantekt má finna hér: http://www.hersak.is/media/uncategorized/201705160838.pdf

Fjármögnun hryðjuverka er samkvæmt 7. tölul. 3. gr. laga nr. 140/2018 skilgreint sem öflun fjár, hvort sem það er með beinum eða óbeinum hætti, í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það í heild eða að hluta til að fremja brot sem er refsivert samkvæmt 100. gr. a – 100. gr. c almennra hegningarlaga.

Eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að eftirtaldir aðilar fari að ákvæðum laga nr. 140/2018 og reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim:

 • Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
 • Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
 • Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum. 
 • Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu
 • Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
 • Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e- -lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018.
 • Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a-e-lið.
 • Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
 • Gjaldeyrisskiptastöðvar að undanskildum þeim aðilum sem öll skilyrði i-liðar 2. gr. laga nr. 140/2018 eiga við um.
 • Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla.
 • Þjónustuveitendur stafrænna veskja

 Um eftirlitið fer samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þeim sérlögum sem um starfsemi eftirlitsskyldra aðila gilda og lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Láti framangreindir aðilar hjá líða að uppfylla skyldur sínar um afhendingu gagna getur Fjármálaeftirlitið lagt dagsektir á viðkomandi.

Financial Action Task Force

 Á fundi leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims í París í júlí 1989 var ákveðið að setja á stofn alþjóðlegan framkvæmdahóp, Financial Action Task Force (FATF), til að vinna að aðgerðum til að koma í veg fyrir að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé í umferð. Árið 2001 var baráttunni gegn fjármögnun hryðjuverka bætt við hlutverk FATF. Þau ríki sem tekið hafa þátt í FATF-samstarfinu hafa verið í fararbroddi aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með inngöngu skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur að tillögum FATF.

Hlutverk og starfssvið FATF hefur verið greint í þrennt. Í fyrsta lagi að semja staðla fyrir aðgerðir í hverju ríki gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, í öðru lagi að leggja mat á aðgerðir ríkja til að innleiða þessa staðla, og í þriðja lagi rannsaka og læra að þekkja aðferðir þeirra sem stunda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samin hafa verið tilmæli til aðildarríkjanna um aðgerðir gegn peningaþvætti. Árið 1990 voru 40 slík tilmæli (e. the 40 Recommendations) gefin út og hafa þau verið endurskoðuð þrisvar, árið 1996,2003 og 2012, til að tryggja að þau fylgi þróun á þessu sviði. Þessi tilmæli og starf hins alþjóðlega framkvæmdahóps hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um peningaþvætti verið í samræmi við tilmælin.

FATF gerði síðast úttekt á aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á Íslandi vorið 2018. Skýrslan leiddi í ljós ýmsa annmarka á aðgerðum stjórnvalda gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og er nú unnið eftir aðgerðaáætlun til að bregðast við þeim athugasemdum sem gerðar voru í úttektinni. 


Fræðsluefni um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Váþættir á bankamarkaði

Áhættuþættir á líftryggingamarkaði

Áhættuþættir á verðbréfamarkaði

Rannsóknar- og tilkynningarskylda

Þjálfun starfsmanna

Áhættusöm ríki

Ábyrgðarmaður

Til bakaLanguage


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica