Útgefendur verðbréfa

Útgefendur verðbréfa eru ekki eftirlitsskyldir aðilar með sama hætti og þeir er stunda leyfisskylda starfsemi. Útgáfa verðbréfa er þó háð ýmsum lagaskilyrðum sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að útgefendur uppfylli. Þá leggja lög og reglur ýmsar skyldur á herðar útgefendum til að tryggja jafnræði fjárfesta og jafnan aðgang þeirra að upplýsingum.

Upplýsingaskylda útgefenda

Útgefandi verðbréfa skal birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu þær upplýsingar sem fjallað er um í lögum um verðbréfaviðskipti (vvl.) eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Aðilar eiga því allir að búa yfir sömu upplýsingum.

Þær upplýsingar sem um ræðir eru t.a.m. innherjaupplýsingar, upplýsingar sem teljast til reglulegra upplýsinga útgefanda (t.d. birting ársreiknings, árshlutareiknings) sem og aðrar upplýsingar sem útgefanda ber að veita og tilgreindar eru sérstaklega í lögum. Að auki skal útgefandi birta á sama hátt breytingar á verulegum hlut atkvæðisréttar, hinar svokölluðu flöggunartilkynningar. En sá aðili sem er flöggunarskyldur skal senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins innan tilgreinds tímafrests. Sjá nánar VII., VIII., IX. og XIII. kafla vvl., reglugerð 707/2008, reglugerð nr. 630/2005, reglur FME nr. 1050/2012  og leiðbeinandi tilmæli nr. 2 2012 um framkvæmd þeirra og  reglur FME nr. 1162/2010.

Flöggunareyðublöð og leiðbeiningar með þeim má finna í þjónustugátt.

Lýsingar

Almennt útboð og taka verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði er háð því að lýsing hafi verið gefin út. Lýsing er samheiti yfir skjal eða skjöl sem gefa þarf út vegna almenns útboðs verðbréfa eða töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Reglur um almenn útboð og töku verðbréfa til viðskipta er að finna í VI. kafla laga nr. 108/2007 (Opnast í nýjum vafraglugga) um verðbréfaviðskipti (vvl.). Jafnframt er hægt að nálgast ítarlegri reglur í reglugerðum nr. 837/2013 (Opnast í nýjum vafraglugga) um almenn útboð verðbréfa að verðmæti jafnvirðis 5.000.000 evra í íslenskum krónum eða meira og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, nr. 836/2013 (Opnast í nýjum vafraglugga) , um almenn útboð verðbréfa að verðmæti jafnvirðis 100.000 evra til 5.000.000 evra í íslenskum krónum og nr. 243/2006 (Opnast í nýjum vafraglugga) um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 809/2004 (Opnast í nýjum vafraglugga) . Ofangreindar reglur gera í flestum tilvikum ráð fyrir að fyrsta skrefið að almennu útboði og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði sé að fá lýsingu samþykkta hjá Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið mælir með að aðilar sem hafa áhuga á að efna til almenns útboðs eða fá verðbréf sín tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði kynni sér þessar reglur í því skyni að afla nauðsynlegra upplýsinga og þar með flýta fyrir ferli viðkomandi umsóknar.

Umsóknareyðublöð og leiðbeiningar má finna í þjónustugátt.

Lista yfir lýsingar má finna í valstiku hér til hliðar

Hæfir fjárfestar

Útgefendum ber ekki skylda til að gefa út lýsingu sé útboðinu eingöngu beint til hæfra fjárfesta.  Skilgreiningin á hæfum fjárfestum er ætluð til að aðgreina þá aðila sem almennt eru taldir búa yfir nægri þekkingu og reynslu til að geta tekið þátt í útboðum án sérstakrar lýsingar, en hana er að finna í verðbréfaviðskiptalögum.

Fjármálafyrirtæki halda utan um lista yfir hæfa fjárfesta og er hann eingöngu tiltækur fyrir útgefendur verðbréfa og þá aðeins í þeim tilgangi að bjóða hæfum fjárfestum þátttöku í útboði. Öll önnur notkun upplýsinganna er óheimil.

Innherjar og regluvarsla

Innherjareglur gilda um þá fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta eða óskað hefur verið eftir að teknir verði til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi, á Evrópska efnahagssvæðinu eða á sambærilegum erlendum mörkuðum og fjármálagerninga sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) hér á landi og fjármálagerninga sem tengdir eru slíkum fjármálagerningum.

Í XIII. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti er kveðið á um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

Innherjaupplýsingar eru nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru.

Með innherja er átt við fruminnherja, tímabundinn innherja og annan innherja.

  • Fruminnherji er aðili sem hefur að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda fjármálagerninga.
  • Tímabundinn innherji er aðili sem telst ekki fruminnherji en býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna. Tímabundinn innherji býr ávallt yfir innherjaupplýsingum og má því ekki eiga viðskipti með fjármálagerninga útgefanda á meðan.
  • Aðrir innherjar eru aðilar sem hvorki teljast fruminnherji né tímabundinn innherji en hafa fengið vitneskju um innherjaupplýsingar, enda hafi viðkomandi vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru. Sem dæmi um slíkan innherja mætti nefna leigubílstjóra sem heyrði innherjaupplýsingar frá farþegum, innbrotsþjóf sem komst yfir innherjaupplýsingar og aðra sem hafa fengið vitneskju um innherjaupplýsingar án vitneskju útgefanda. Slíkum innherjum er ávallt óheimilt að eiga viðskipti með fjármálagerninga útgefanda á meðan upplýsingar hafa ekki verið gerðar opinberar.

 

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica