Upplýsingaskylda útgefenda og flagganir

Útgefendur verðbréfa eru eftirlitsskyldir aðilar á grundvelli 2. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 og eru því undir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitsins), en þó ekki með sama hætti og aðilar sem stunda leyfisskylda starfsemi. Útgáfa verðbréfa er háð ýmsum lagaskilyrðum sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að útgefendur uppfylli. Þá leggja lög og reglur ýmsar skyldur á herðar útgefendum til að tryggja jafnræði fjárfesta og jafnan aðgang þeirra að upplýsingum.

Upplýsingaskylda útgefenda

Útgefandi verðbréfa skal birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu þær upplýsingar sem fjallað er um í lögum nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Aðilar eiga því allir að búa yfir sömu upplýsingum.

Þær upplýsingar sem um ræðir eru t.a.m. upplýsingar sem teljast til reglulegra upplýsinga útgefanda (t.d. birting ársreiknings, árshlutareiknings) sem og aðrar upplýsingar sem útgefanda ber að veita og tilgreindar eru sérstaklega í lögum. Að auki skal útgefandi birta á sama hátt breytingar á verulegum hlut atkvæðisréttar, hinar svokölluðu flöggunartilkynningar. En sá aðili sem er flöggunarskyldur skal senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins innan tilgreinds tímafrests.

Með lögum nr. 20/2021 voru frestir til að senda flöggunartilkynningar lengdir, en eftir breytinguna skal fjárfestir sem er flöggunarskyldur senda útgefanda tilkynningu eins fljótt og auðið er, en eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að skyldan stofnast. Útgefandi skal birta flöggunartilkynninga eins fljótt og auðið er, en eigi síðar en þremur viðskiptadögum eftir að tilkynning berst útgefandanum.

Lög nr. 20/2021 setja einnig þá skyldu á útgefendur að birta ársreikninga sína á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Fyrstu skil miða við reikningsárið sem hefst 1. janúar 2021.

Sjá nánar lög nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, reglugerð nr. 707/2008 um upplýsingagjöf og tilkynningaskyldu og reglur Seðlabanka Íslands nr. 1162/2010 um hvað telst fjölmiðill.

Flöggunareyðublöð og leiðbeiningar með þeim má finna í þjónustugátt.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica