Uppljóstrun

Fjármálaeftirlitið tekur við og fylgir eftir tilkynningum um brot, grun um brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, sbr. 13. gr. a laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Allar tilkynningar sem berast Fjármálaeftirlitinu eru metnar og skoðað hvort tilefni sé til þess að fylgja þeim eftir með frekari athugun. Ákvörðun um hvort tilkynningar leiði til frekari athugunar er ávallt í hendi Fjármálaeftirlitsins. Þar sem Fjármálaeftirlitið er bundið ríkri þagnarskyldu um samskipti sín við eftirlitsskylda aðila eiga þeir sem tilkynna ekki rétt á upplýsingum um hvort stofnunin hafi eða muni taka tilkynninguna til frekari athugunar. Upplýsingar um einstök mál eru aðeins veittar í samræmi við ákvæði laga um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins og gagnsæisstefnu stofnunarinnar.

Hverjir geta tilkynnt?

Þeir sem starfa eða hafa starfað hjá eða fyrir eftirlitsskylda aðila, t.d. stjórnarmenn, starfsmenn, endurskoðendur og ráðgjafar, og hafa vitneskju um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum eru hvattir til að senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu.

Fjármálafyrirtæki skulu hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna þeirra um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um starfsemi fjármálafyrirtækisins, sbr. 60. gr. a og 60. gr. b laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Starfsmenn fjármálafyrirtækja geta því valið milli þess að senda tilkynningu beint til Fjármálaeftirlitsins eða innan hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sem eftir atvikum framsendir hana til stofnunarinnar.

Þeim sem hvorki starfa né hafa starfað hjá eða fyrir eftirlitsskylda aðila en hafa vitneskju um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er einnig frjálst að senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu.

Fjármálaeftirlitið vill árétta að um ábendingar, kvartanir og fyrirspurnir er lúta að neytendavernd fer samkvæmt upplýsinga- og leiðbeiningarþjónustu stofnunarinnar.

Nafnleynd

Fjármálaeftirlitinu ber að tryggja að ef upplýsingar sem fram koma í tilkynningu má rekja beint eða óbeint til þess sem tilkynnti skulu þær fara leynt, nema skylt sé að veita slíkar upplýsingar lögum samkvæmt til lögreglu eða á grundvelli dómsúrskurðar.

Þrátt fyrir að tilkynningar geti verið nafnlausar vill Fjármálaeftirlitið vekja athygli á því að það gæti haft áhrif á trúverðugleika tilkynningar og eftirfylgni hennar þar sem ekki er unnt að fá frekari upplýsingar og skýringar frá þeim sem tilkynnti.

Innihald tilkynningar

Æskilegt er að tilkynning innihaldi að lágmarki eftirfarandi upplýsingar:

  1. Heiti hins eftirlitsskylda aðila og nöfn stjórnarmanna, starfsmanna eða annarra aðila sem eiga hlut að máli.
  2. Lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem eiga við.
  3. Lýsingu á málavöxtum.

Ef sá er tilkynnir býr yfir gögnum sem styðja við að brot, möguleg brot eða tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum hafi átt sér stað skulu þau fylgja tilkynningunni.

Tilkynningaleiðir

  • Með því að tilkynna hér
  • Með bréfpósti á heimilisfangið Kalkofnsveg 1, 101 Reykjavík, sem er merktur ‘Uppljóstrun‘

Vakin er athygli á að sá sem tilkynnir þarf ekki að gefa upp nafn eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar.

Til baka




Þetta vefsvæði byggir á Eplica