Eftirlit með aðilum á þvingunarlistum

Þvingunaraðgerðir eru alþjóðlegar ráðstafanir sem hafa það að markmiði að viðhalda friði og öryggi í heiminum og tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Aðgerðirnar geta t.d. verið að þvinga ríki, eða einstaklinga í tilteknum ríkjum, til að breyta háttsemi sinni eða hefta aðgang aðila að auðlindum sem nauðsynlegar eru til að halda til streitu óæskilegri háttsemi.

Skyldur tilkynningarskyldra aðila

Tilkynningarskyldum aðilum ber að uppfylla tilteknar kröfur sem koma fram í lögum nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna. Í þessu sambandi er vakin sérstök athygli á kröfum ákvæða 10. gr. og 13. gr. laganna en þær felast m.a. í eftirfarandi aðgerðum:

  1. Skylt er að hafa viðeigandi kerfi og/eða ferla og aðferðir til að sinna eftirliti með því hvort viðskiptamenn og raunverulegir eigendur séu á listum yfir þá sem sæta alþjóðlegum þvingunaraðgerðum. Með kerfi er átt við tölvukerfi eða gagnagrunn sem sækir ávallt nýjustu upplýsingarnar um þá sem eru á listum yfir þvingunaraðgerðir. Þeir sem fengið hafa undanþágu frá kröfu um slíkt kerfi á grundvelli 1. mgr. 13. gr. þurfa þó ávallt að hafa ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamenn þeirra og raunverulegir eigendur séu á listum yfir þvingunaraðgerðir. Skimun gagnvart slíkum listum skal fara fram bæði í upphafi viðskipta og reglulega á meðan samningssambandið varir. Mikilvægt er að tilkynningarskyldir aðilar endurmeti reglulega þörf á tíðni eftirlits.

  2. Skylt er að frysta fjármuni og efnahagslegan auð (hér eftir „fjármuni“) ef í ljós kemur að viðskiptamaður er á listum yfir þá sem sæta þvingunaraðgerðum, í samræmi við reglugerðir sem settar eru á grundvelli laga nr. 68/2023. Hér er m.a. átt við fjármuni í eigu viðskiptamannsins, hvort sem hann á þá með beinum eða óbeinum hætti (hefur yfirráð yfir þeim), hefur þá í sinni vörslu eða stýrir þeim. Nái eignarhald viðskiptamanns til fjármuna að hluta, skal frystingin ná til þeirra í heild sinni.

  3. Tilkynna skal eigendum fjármuna, utanríkisráðuneytinu, skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og Seðlabanka Íslands um frystingu fjármuna.
  1. Tilkynna Seðlabanka Íslands og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu þegar grunur leikur á um að viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi hafi gert ráðstafanir til að komast hjá frystingu fjármuna eða efnahagslegs auðs skv. 10. gr. laganna.

Tilkynningar um frystingu fjármuna og aðrar upplýsingar sem tengjast framkvæmd laga um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir og frystingu fjármuna skulu, eftir því sem við á, sendar til utanríkisráðuneytisins á netfangið postur@mfa.is, skrifstofu fjármálagreininga lögreglu á netfangið pt@hersak.is og Seðlabanka Íslands á netfangið sedlabanki@sedlabanki.is.

Sá sem vanrækir að uppfylla skyldur samkvæmt lögum um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna getur verið látinn sæta viðurlögum, m.a. í formi dagsekta eða stjórnvaldssekta.

Nánari skýringar varðandi þvingunaraðgerðir er að finna í leiðbeiningum fjármálaeftirlitsins og í fræðsluefni stýrihóps aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Einnig er að finna nánari upplýsingar á lista stjórnarráðsins og á þvingunaraðgerðakorti Evrópusambandsins.

Þvingunaraðgerðir vegna hernaðaraðgerða Rússlands í Úkraínu

Seðlabankinn vekur athygli tilkynningarskyldra aðila á því að Ísland hefur tekið undir allar pólitískar yfirlýsingar Evrópusambandsins (ESB) varðandi þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þannig hefur Ísland skuldbundið sig til þess að innleiða þvingunaraðgerðir ESB gagnvart Rússlandi vegna hernaðaraðgerða ríkisins í Úkraínu. Þvingunaraðgerðirnar fela m.a. í sér frystingu fjármuna auk annarra aðgerða sem snúa að fjármálamarkaði og hvetur Seðlabankinn tilkynningarskylda aðila til þess að kynna sér vel til hverra þær ná.

Þessar þvingunaraðgerðir taka í ljósi aðstæðna tíðum breytingum og er tilkynningarskyldum aðilum bent á að fylgjast vel með breytingum á lista stjórnarráðsins.

Þá hafa einnig verið innleiddar hérlendis allar þvingunaraðgerðir ESB gagnvart Belarús í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og þátttöku Belarús í slíkum árásum.

Áskoranir tengdar þvingunaraðgerðunum

Framangreindar þvingunaraðgerðir geta haft tilteknar afleiddar áskoranir í för með sér fyrir tilkynningarskylda aðila. Sem dæmi má nefna að í einhverjum tilvikum hafa millibankar ákveðið fyrir fram að hafna öllum greiðslum til Rússlands og Úkraínu í stað þess að leggja sjálfstætt mat á hvert tilvik. Takmarkanir á aðgangi að bankaþjónustu af þessum toga geta leitt til fjárhagslegrar útilokunar auk þess sem þær geta stuðlað að vexti innan ólögmæta hagkerfisins. Aftur á móti er ljóst að tilkynningarskyldum aðilum er skylt í sumum tilvikum að synja viðskiptamanni um þjónustu ef ekki er unnt að kanna áreiðanleika hans skv. lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá er tilkynningarskyldum aðilum jafnframt heimilt að synja og/eða takmarka þjónustu við viðskiptamenn sem samræmast ekki áhættuvilja tilkynningarskyldu aðilanna. Seðlabankinn hvetur tilkynningarskylda aðila til að leggja mat á einstök tilvik, frekar en að útiloka fyrir fram tiltekna hópa sem sæta ekki þvingunaraðgerðum.

Eins hafa komið upp álitaefni tengd aðgangi flóttafólks og hælisleitenda að lágmarks fjármálaþjónustu og áskoranir tengdar framkvæmd áreiðanleikakannana. Þar sem að dómsmálaráðherra hefur ákveðið að veita skuli flóttafólki frá Úkraínu vernd vegna fjöldaflótta gætu slík álitaefni einnig komið upp hér á landi. Um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sem veitt er eitt ár í senn og felur m.a. í sér réttindi og aðgengi að tiltekinni þjónustu s.s. húsnæði, framfærslu, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og aðgengi að atvinnumarkaðnum. Bent hefur verið á að aðgangur að grundvallar fjármálaþjónustu getur verið forsenda þátttöku í nútíma samfélagi. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA) hefur áður fjallað um áskoranir því tengdu í áliti sínu frá árinu 2016 um fjárhagslega útilokun í þeim aðstæðum að flóttamenn og hælisleitendur geta ekki framvísað gögnum til að hægt sé að framkvæma hefðbundna áreiðanleikakönnun og er það álit í fullu gildi komi slíkt til álita.

Vörur með tvíþætt notagildi

Seðlabankinn vill einnig vekja athygli á því að óheimilt er að efna samninga, eða fullnægja öðrum réttindum og skyldum, sem fara í bága við lögin og reglugerðir settar með stoð í þeim skv. 7. gr. laga nr.68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna. Þetta á við hvort sem þessi réttindi og skyldur stofnuðust fyrir eða eftir gildistöku viðkomandi reglugerðar nema annað sé tekið fram í henni. Í þessu felst m.a. að óheimilt er að hafa milligöngu um slíkar efndir eða eiga þátt í að réttindum og skyldum þeirra sem eru á þvingunarlistum sé fullnægt.

Í þeim þvingunaraðgerðum sem hafa verið innleiddar hér á landi gagnvart Rússlandi er m.a. lagt bann við viðskiptum og þjónustu tengda flugþjónustu og geimiðnaði, einnig hvað varðar viðhald og viðgerðir. Þar sem stór hluti rússnesks flugvélaflota er framleiddur innan ESB, í Bandaríkjunum og Kanada er mögulegt að greiðslur fyrir þjónustu tengda þeim fari í gegnum íslenskar fjármálastofnanir. [1]

Þá er í framangreindum þvingunaraðgerðum einnig lagt bann við viðskiptum með hátæknivörur sem kunna að styrkja hernaðarmátt Rússa og þjónustu tengda þeim (sjá reglugerð (ESB) 2022/328). Þannig er lagt bann við viðskiptum með allar vörur sem geta haft tvíþætt notagildi og gætu þannig nýst í hernaði (e. dual use) og þjónustu tengda þeim, sbr. 2. gr. reglugerðar (ESB) 2022/328. Einnig er lagt bann við viðskiptum með fleiri vörur sem finna má í Annex VII við reglugerðina.

Þar sem um er að ræða margskonar vörur er ekki útilokað að greiðslur fyrir slík viðskipti eigi sér stað á Íslandi. Vera kann að heimilt sé að efna fyrirliggjandi skuldbindingar. Í þeim tilvikum er kveðið sérstaklega á um það í einstökum reglugerðum. Mikilvægt er því að meta hvert einstakt tilvik.

Í ljósi alls framangreinds er ljóst að tilkynningarskyldir aðilar þurfa að vera vakandi fyrir því hvort þeir séu að gera viðskiptamönnum sínum kleift að efna samninga eða fullnægja öðrum réttindum og skyldum sem brjóta í bága við þvingunaraðgerðir. Slíkt getur falið í sér brot á lögum sem varðar sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Sé brot framið af stórfelldu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Að lokum vekur Seðlabankinn athygli á því að utanríkisráðuneytið hefur komið á fót vefsvæði þar sem að hægt er að nálgast samandregnar upplýsingar tengdar innleiðingu á þvingunaraðgerðum vegna hernaðaraðgerða Rússlands í Úkraínu á Íslandi.

[1] Þvingunaraðgerðir vegna hernaðaraðgerða Rússlands í Úkraínu (stjornarradid.is)

Gagnlegir tenglar

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica